Fréttir

Námskeið um Þórberg Þórðarson

Þórbergur ÞórðarsonPétur Gunnarsson hefur umsjón með bókmenntanámskeiði um Þórberg Þórðarson í Gerðubergi mánudags- og miðvikudagskvöldin 11. og 13. október næstkomandi.

Þótt kominn sé meira en mannsaldur síðan Þórbergur yfirgaf sviðið (1974) hefur hann sjaldan verið jafn nærverandi og nú. Á undanförnum árum hafa birst um hann verk sem byggja á því ríkulega heimildasafni sem hann lét eftir sig og varpa oft óvæntu ljósi á manninn og skýra jafnvel marga gátu í lífshlaupi hans og höfundarverki.

Á tveggja kvölda námskeiði um Þórberg hyggst Pétur Gunnarsson rithöfundur vekja hugboð um þessa þróun og efna til stefnumóts við höfundinn og verk hans eins og það horfir við okkur núna.

Þátttökugjald er 8.000 krónur og skráning er hafin í síma 575-770 og á gerduberg@reykjavik.is

Pétur Gunnarsson er öðrum fróðari um manninn og skáldið Þórberg. Í  skáldfræðisögunum ÞÞ - Í fátæktarlandi (2007) og ÞÞ - Í forheimskunarlandi (2009), endurskapar hann þroskasögu Þórbergs sem rithöfundar og einstaklings. Pétur leitar víða fanga, ekki einungis í útkomnum verkum heldur einnig í sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti.

Bækurnar hafa notið mikilla vinsælda og fyrir þær hlaut Pétur viðurkenningu Hagþenkis árið 2009. Þá var fyrri bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2007 og var valin bók ársins af Morgunblaðinu.

Á ritþingi Gerðubergs, 13. nóvember, munu þau Torfi H. Tulinius, Soffía Auður Birgisdóttir og Kristján Kristjánsson ræða við Pétur um lífshlaup hans og höfundarverk.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál