Fréttir

Upp sé ég koma öðru sinni...

Úr Hávamálum

Á námskeiðinu Upp sé ég koma öðru sinni .... skoðar Kristín Ragna Gunnarsdóttir norrænar goðsagnir sem efnivið til sköpunar. Hún hefur sjálf unnið með goðafræðina á mismunandi hátt; í bókarformi, sem veggmyndir, hannað sýningu fyrir ferðamenn, sett upp barnasýningu og er að vinna að teiknimynd sem byggir á Völuspá. Á námskeiðinu segir Kristín frá vinnunni að baki þessara verka og skoðar listaverk nokkurra annarra listamanna sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessum menningararfi okkar. Hópurinn mun í sameiningu rýna í heim norrænna goðsagna og skoða hann sem uppsprettu nýrra hugmynda. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla þá sem hafa áhuga á þessu efni og hyggjast nýta það sem kveikju að nýjum verkum.

Kristín Ragna er hönnuður og sýningarstjóri sýningarinnar Ormurinn ógnarlangi sem nú stendur yfir í Gerðubergi (sjá nánar hér). Sýningin hefur hlotið afar góðar viðtökur jafnt barna sem fullorðina. Að sýningunni koma fjölmargir aðilar, en nemendur Kristínar við Listaháskóla Íslands og Iðuna fræðslusetur lögðu til hönnun og vinnu. Sýningin byggir á norrænu goðafræðinni og á henni má m.a. sjá Fenrisúlfinn bundinn, Miðgarðsorm, Surt og fleiri illfygli ásamt fésbókum goðanna. Nemendur námskeiðsins Upp sé ég koma öðru sinni ... munu kynnast vinnunni að baki sýningunni og ættu þeir sem eru í skapandi námi eða starfi því ekki að láta þetta tækifæri til að skyggnast inn í skissubækur Kristínar Rögnu fram hjá sér fara.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún var gestanemi í málun við sama skóla og lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði og ritlist frá Háskóla Íslands. Kristín Ragna er sjálfstætt starfandi teiknari, hugmyndasmiður og kennari.

Námskeið er haldið dagana 15. og 17. nóvember kl. 20-22
Skráning á gerduberg@reykjavik.is eða í síma 575 7700.
Þátttökugjald er 6.000 kr. (ATH. áður auglýst verð 8.000 kr.)


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál