Fréttir

Ritþing með Pétri Gunnarssyni

Laugardaginn 13. nóvember verður ritþing með Pétri Gunnarssyni í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Þingið hefst kl. 13:30 og stendur til kl. 16. Aðgangur er ókeypis.

Ritþing Gerðubergs hafa verið haldin frá árinu 1999 og eiga nú fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Á þingunum er leitast við að veita persónulega innsýn í líf og feril íslenskra rithöfunda. Að þessu sinni verður fjallað um Pétur Gunnarsson og verk hans. Stjórnandi ritþingsins er Torfi H. Tulinius og spyrlar þau Soffía Auður Birgisdóttir og Kristján Kristjánsson. Á ritþinginu flytur Valgeir Guðjónsson lög við texta Péturs og sjálfur mun Pétur lesa brot úr verkum sínum.

Pétur Gunnarsson fæddist 15. júní 1947 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 hélt hann utan til náms í Frakklandi og lauk Meistaraprófi í heimspeki (maîtrise) frá Université d'Aix-Marseille árið 1975.

Í æsku var Pétur var mikill lestrarhestur og tíður gestur bókasafna. Þá voru bókabúðir á hverju strái í miðbænum á uppvaxtarárum hans. Bækurnar voru ekki innpakkaðar eins og nú tíðkast og mun Pétur fljótt hafa komist upp á lag með „að lesa bók eins og að horfa í gjá“,   þ.e. án þess að brjóta hana í kjölinn. Þannig mátti, með því að kaupa eina bók og skipta henni að lestri loknum, fá aðgang að öllum hinum bókunum í búðinni og svala lestrarfíkninni. Mikill bóklestur æskuáranna hefur án efa átt sinn þátt í vali Péturs á ævistarfi. Þá hefur hann einnig nefnt löngunina til að veita gleymskunni viðnám og sagt það hlutskipti höfundar „að hæla niður þau verðmæti sem hann vill ekki sjá fjúka út í veður og vind“.

Höfundarverk Péturs er afar fjölbreytt og umfangsmikið. Þar á meðal eru ljóð, skáldsögur, ævisögur, ritgerðir, smátextar og þýðingar. Hann hefur tekið þátt í samstarfsverkefnum með leikhús- og tónlistarfólki og unnið margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp. Þá hefur hann sent frá sér fjölmargar greinar um menningarmál og þjóðmál og haldið erindi á margvíslegum vettvangi enda segist Pétur trúa því að hlutverk höfundarins sé að skipta sér af því sem honum kemur ekki við og að leitin að merkingu sé leiðin til að ljá lífi okkar merkingu. Hjá Forlaginu er nú væntanleg bókin Péturspostilla. Hugvekjur handa Íslendingum með úrvali greina  og erinda Péturs frá síðastliðnum áratug.

Sjá nánar á vef Gerðubergs.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál