Fréttir

Hausthefti Skírnis

Frá landnámi til landsdóms

Hausthefti Skírnis er komið út, röskar 300 síður að stærð og því óvenju efnismikið að þessu sinni. Umfjöllunarefnin ná frá landnámi til landsdóms og höfundar takast bæði á við sígildar spurningar heimspekinnar og mál sem eru á döfinni í íslensku samfélagi. Af greinum sem fást við umræðuefni samtímans má telja ritgerð Vals Ingimundarsonar um breytt hlutverk svonefndra norðurslóða og hvernig ríki sem eiga landamæri að þeim reyna að móta utanríkisstefnu sína, grein Jóhanns Björnssonar um málefni flóttamanna frá sjónarhorni siðfræði og grein Sigurðar Líndals um landsdóm, þar sem hann færir rök að því að ekki séu efni til að fella lagalega ábyrgð ráðherra úr gildi.

Leikhúsmál eru áberandi í bókmenntaumfjöllun ritsins og fer þar mest fyrir úttekt Sveins Einarssonar á leikskáldinu Guðmundi Kamban, en fyrri grein hans um leikhúsmanninn Kamban (Skírnir, haust 2008) vakti mikla athygli. Ennfremur birtir Trausti Ólafsson nýja athugun á Nýársnóttinni, verki Indriða Einarssonar sem var valið til sýningar á vígslukvöldi Þjóðleikhússins fyrir sextíu árum. Önnur umfjöllun tengist íslenskri bókmenntahefð í ólíkum myndum, Sif Ríkharðsdóttir ritar um meykóngahefð í riddarasögum og Bergljót S. Kristjánsdóttir um bókmenntaarfleifðina í verkum Arnaldar Indriðasonar. Túlkun hefðarinnar er líka á dagskrá í grein Sigrúnar Andrésdóttur um Íslandsvinina í Vín, þá Josef Poestion og Hans von Jaden, en Stefán Snævarr sendir frá sér heimspekilega hugleiðingu, með samtímatilvísun, um hugtakið frelsi. Örn Ólafsson andmælir Þorsteini Þorsteinssyni í Skírnismálum, en Guðmundur Andri Thorsson birtir nýja smásögu í bókmenntaþættinum. Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er myndasmiðurinn Einar Falur Ingólfsson, sem Gunnar Árnason skrifar um í ritgerðinni „Á ferðalagi um tímann“.

Ritstjóri Skírnis er Halldór Guðmundsson en útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál