Fréttir

Sjálfstætt ljóðaslamm

LjóðaslammFjórða ljóðaslamm Borgarbókasafns Reykjavíkur verður haldið á Safnanótt, föstudaginn 11. febrúar 2011. Að þessu sinni er þemað ‚sjálfstæði’, sem ætti að gefa margvíslega möguleika.

Sem fyrr er ljóðaslammið ætlað ungu fólki og er skilgreint á afar opinn hátt sem einskonar ljóðagjörningur og er áherslan ekki síður lögð á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms.

Dagskrár síðustu þriggja ára hafa einkennst af hugmyndauðgi, krafti og frumleika en fyrri þemu voru ‚spenna’, ‚hrollur’ og ‚væmni‘. Eina krafan hefur verið sú að flutt væri frumsamið ljóð eða stuttur prósi og hafa þátttakendur sýnt dansverk, ör-leikþætti og rapp, auk þess sem fólk hefur sungið og leiklesð ljóð með myndefni svo eitthvað sé nefnt.

Sigurvegarinn árið 2008 var Halldóra Ársælsdóttir sem vakti mikla athygli fyrir verðlaunaatriði sitt, Verðbréfadrenginn. Árið 2009 voru það þær Ásta Fanney Sigurðardóttir og Ástríður Tómasdóttir sem sviðsettu ljóðagjörninginn Eine kleine hrollvekja með áhrifaríkum hætti. Væmna ljóðaslammið 2010 sigraði tríóið Greitt til hliðar plús tveir með ljóðinu Hlölli. Atriði þeirra verður endurflutt að lokinni dagskránni 2011, meðan dómnefnd ræður ráðum sínum.

Fimm manna dómnefnd velur þrjú bestu atriðin. Í henni sitja fyrir hönd Borgarbókasafns Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur og Tinna Bjarnadóttir tónlistarkona. Aðrir eru Stefán Máni rithöfundur, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona og Óttarr Proppé tónlistarmaður.

Upptökur af siguratriðunum þremur verða settar á ljodaslamm.is og á YouTube. Þar má einnig sjá upptökur af siguratriðum síðustu ára.

Ljóðaslammið er haldið í samstarfi við ÍTR og Rás2.

Sem fyrr segir er ljóðaslammið haldið á Safnanótt, 11. febrúar 2011, og fer dagskráin fram á aðalsafni Borgarbókasafns að Tryggvagötu 15 og hefst kl. 20:30.

Skráningarfrestur er til föstudagsins 28. janúar 2011.

Skráningareyðublöð er að finna á öllum Borgarbókasöfnunum, auk þess sem hægt er að skrá sig með tölvupósti hjá Kristínu Viðarsdóttur, kristin.vidarsdottir@reykjavik.is. Frekari upplýsingar má nálgast á ljodaslamm.is (sjá borgarbokasafn.is) og hjá Guðríði Sigurbjörnsdóttur, gudridur.sigurbjornsdottir@reykjavik.is eða Kristínu Viðarsdóttur, kristin.vidarsdottir@reykjavik.is.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál