Fréttir

Fjögur högg á dyr ógæfunnar

Föstudaginn 10. desember verður haldið málþing um franska rithöfundinn Albert Camus í Þjóðminjasafninu. Þingið er á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Hálf öld er nú liðin frá dauða Camus. Hann leit sjálfur á sig sem rithöfund og sagði að skáldsagan væri aldrei neitt annað en heimspeki sett fram á myndrænan hátt. Camus hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1957 og er þekktastur fyrir skáldsögurnar þrjár Útlendinginn, Pláguna og Fallið þótt hann hafi einnig samið leikrit, smásögur og ritgerðir.

Í ritinu Goðsögnin um Sísýfos fjallar Camus um „þögn heimsins“ og fáránleika mannlegrar tilvistar. Hann tók svo afstöðu gegn fáránleikanum í Uppreisnarmanninum þar sem hann gagnrýndi líka alræðishyggju trúarbragða og marxískrar hugmyndafræði. Í augum samlanda sinna og samtímamanna þótti Camus ekki mikill heimspekingur en viðfangsefni heimspekiritgerðanna endurspeglast í skáldverkum hans sem notið hafa mikilla vinsælda um árabil.

Dagskrá:

14:00
Ásdís R. Magnúsdóttir: Útlendingurinn og óvitinn. Um þýðingu á Útlendingnum eftir Camus.

14:30
Torfi H. Tulinius: „Blítt skeytingarleysi" Um náttúruna í Útlendingnum

15:00
Irma Erlingsdóttir: Útlendingur í heimalandi: Albert Camus, uppreisn og frönsk kenning

15:30   
Björn Þorsteinsson: Hugsað um aðra í plágunni miðri. Camus og hugsjónin.

Málþingið fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og lýkur því klukkan 16.

Allir eru velkomnir.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál