Fréttir

Höfundar á Bókmenntahátíð í haust

Bókmenntahátíð í Reykjavík verður sett í tíunda sinn miðvikudaginn 7. september næstkomandi og mun standa til sunnudagsins 11. september. Þema hátíðarinnar er norrænn sagnaarfur, lifandi samtímabókmenntir og hana munu sækja fjöldi erlendra og innlendra gesta, höfunda og útgefenda. Hátíðin í ár verður tileinkuð minningu Thors Vilhjálmssonar sem var einn af upphafsmönnum Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 1985.

Dagskrá hátíðarinnar fer fram í Norræna húsinu og í Iðnó. Í Norræna húsinu verða hádegisviðtöl, málstofur og fyrirlestrar, en á dagskránni þar eru líka Íslendingasagnaþing og útgefendamálþing. Í Iðnó munu höfundar lesa úr verkum sínum á kvöldin auk þess sem haldið verður bókaball í Iðnó, laugardagskvöldið 10. september. Þá mun einnig verða dagskráratriði tengd Bókmenntahátíð í Reykjavík í Háskóla Íslands og í Borgarbókasafninu.

Erlendir höfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2011 eru:

Herta Müller (1953) er þýskumælandi rithöfundur frá Rúmeníu. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2009. Skáldsaga hennar Ennislokkar einvaldsins kom út í íslenskri þýðingu árið 1995. Í haust er væntanleg íslensk þýðing nýjustu skáldsögu hennar, Atemschaukel  hjá Ormstungu.

Nawal El Saadawi (1931) er egypsk skáldkona, höfundur yfir 50 skáldverka, og einn af nafntoguðustu mannréttindafrömuðum Egyptalands. Hún kemur hingað í sameiginlegu boði Bókmenntahátíðar og Rannsóknarstofnunar í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Horacio Castellanos Moya (1957) er smásagna- og skáldsagnahöfundur frá El Salvador og þykir einn mikilvægasti rithöfundur Mið-Ameríku um þessar mundir.  Skáldsaga hans Insensatez er væntanleg í íslenskri þýðingu í haust hjá Bjarti.

Pia Tafdrup (1952) er dönsk skáldkona. Árið 1999 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Dronningporten (Drottningahliðið). Ein þekktasta ljóðabók hennar er Krystalskoven, sem kom út árið 1992, en auk ljóðabóka hafa frá henni komið skáldsögur og leikrit.

Vikas Swarup (1963) er indverskur rithöfundur, þekktastur fyrir metsölubókina Viltu vinna milljarð sem varð síðar að margverðlaunaðri óskarskvikmynd. Önnur skáldsaga hans Sex grunaðir kom út í íslenskri þýðingu árið 2009.

Alexis Wright (1950) er áströlsk skáldskona af frumbyggjaættum. Hún gaf út bókina Carpenteria árið 2006 sem hlaut fjölda bókmenntaverðlauna í Ástralíu árið 2007 og hefur henni verið lýst sem 100 ára einsemd og Sjálfstæðu fólki Ástrala.

Denise Epstein (1929) kemur í sameiginlegu boði Bókmenntahátíðar og Alliance Française og kynnir gleymd verk móður sinnar, frönsku skáldkonunnar Irène Némirovsky, sem hafa nýlega verið enduruppgötvuð. Í haust kemur út hjá Forlaginu skáldsaga eftir Némirovsky í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar og einnig verður sett upp ljósmyndasýning um ævi skáldkonunnar í Borgarbókasafni.

Ingo Schulze (1962) þykir meðal bestu skáldsagnahöfunda Þýskaland en hann fjallar gjarnan um togstreituna sem myndaðist eftir sameiningu Þýskalands. Hann gaf út sína fyrstu bók árið 1995 og hlaut fyrir hana þýsku bókmenntaverðlaunin. Í haust kemur út hjá Forlaginu bókin Adam und Evelyn. Schulze var áður gestur Bókmenntahátíðar árið 2000.

Karl Ove Knausgård (1968) er norskur rithöfundur sem hefur slegið í gegn með sjálfsævisögulega verki sínu Min kamp sem kom út í sex bindum. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, meðal annars norsku Brage verðlaunin, norsku gagnrýnendaverðlaunin auk þess að hafa verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Kristof Magnusson (1976) er þýsk-íslenskur rithöfundur og þýðandi. Hann hefur þýtt fjölda íslenskra bóka, m.a. Grettissögu, verk Einars Kárasonar og Steinars Braga. Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 2005 og önnur skáldsaga hans frá árinu 2010, Das was ich nicht, hlaut afar góða dóma og er væntanleg í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu á næsta ári.

Matt Haig (1975) er breskur blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifar í gamansömum tón og hefur fært tvö verka Shakespeare í annan búning í skáldsögum sínum. Í öðru tilvikinu lét hann aðalpersónurnar í Hinriki IV vera hunda. Hjá Bjarti er væntanleg í íslenskri þýðingu í haust bókin The Radleys.

Paolo Giordano (1982) er ítalskur rithöfundur og öreindafræðingur sem sló í gegn með fyrstu bók sinni, Einmana prímtölur, en hún kom út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti árið 2010. Fyrir þá bók hlaut hann ítölsku bókmenntaverðlaunin Premio Strega. Í fyrra kom út kvikmynd byggð á sögunni sem sömuleiðis hlaut góðar viðtökur.

Sara Stridsberg (1972) er sænskur rithöfundur og þýðandi. Hún hefur skrifað þrjár skáldsögur og hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Drömfakulteten árið 2007, en í henni segir frá síðustu dögum Valerie Solanas.

Steve Sem-Sandberg (1957) er sænskur rithöfundur og gagnrýnandi. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu árið 1976 og hefur síðan skrifað bæði skáldsögur og ritgerðir. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina De fattiga i Lódz og hlaut jafnframt fyrir hana Augustpriset í Svíþjóð. Bókin er væntanleg á íslensku hjá Uppheimum.

Uwe Timm (1940) er þýskur og hefur gefið út fjölda skáldsagna. Hann er afar vinsæll í Þýskalandi og hefur bók hans um uppruna „karrípylsunnar“ (Die Entdeckung der Currywurst) átt mikilli velgengi að fagna þar í landi. Timm hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín.


Stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík skipa: Sigurður G. Valgeirsson, formaður, Einar Kárason, Halldór Guðmundsson, Max Dager, Pétur Már Ólafsson, Óttarr Proppé, Sjón, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og Örnólfur Thorsson.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál