Fréttir

Einar Már í Kaupmannahöfn

Einar Már Guðmundsson kynnir nýútkomna bók sína, Bankastræti núll, í Jónshúsi í Kaupmannhöfn fimmtudagskvöldið 16. júní kl. 20. Húsið opnar kl. 19:15. Bókmenntakvöldið er skipulagt af PILK (Projektgruppen Islandsk Litteratur i København) í samstarfi við Jónshús.

Bankastræti núll, sem kom út 26. maí síðastliðinn, hefur undirtitilinn „sögur úr veruleikanum“. Þar skrifar Einar Már um samband þjóðlífsins og menningarinnar – ekki ólíkt því og hann gerði í Hvítu bókinni árið 2009.

Í þessari nýju bók er viðfangsefnið þrenning bókvitsins, verkvitsins og siðvitsins og hvernig henni hefur verið sundrað, ofurvald fjármálaheimsins, afþreying og reyfarar, eldfjöll, bankar og byltingar. Og spurt er hvort hægt sé að kaupa menninguna. Eða eins og segir á bókarkápu:

„Á Íslandi er veruleikinn einsog nýtt bókmenntaform. Hann slær öllum skáldskap við. Öfgafullir súrrealistar hljóma einsog raunsæjar kerlingar, glæpasögur einsog vögguvísur og furðusögur hafa ekkert í ímyndunarafl útrásarvíkinganna að gera … Ísland er einsog raunveruleikaþáttur, eldgos í beinni útsendingu og fjármálakreppa sem breytir bankastjórum í eftirlýsta menn.“

Léttar veitingar verða til sölu í Jónshúsi og einnig verður hægt að kaupa bókina á hagstæðu verði (tekið er fram að einungis er tekið við reiðufé og að næsti hraðbanki sé á Østerport St.).

Aðgangur er ókeypis.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál