Fréttir

Yrsa Sigurðardóttir hlýtur Blóðdropann

Ég man þigYrsa Sigurðardóttir hlaut rétt í þessu Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, fyrir bók sína Ég man þig. Þetta er í fimmta sinn sem Blóðdropinn er afhentur, en hér má sjá tilnefningar og verðlaunahafa fyrri ára. Sú bók sem hlýtur Blóðdropann er ennfremur framlag Íslands til Norrænu glæpasagnaverðlaunanna, Glerlykilsins.

Úr umsögn dómnefndar:

"Í bókinni sýnir Yrsa hversu gott vald hún hefur á aðalsmerki glæpasögunnar; vel ofinni fléttu og uppbyggingu spennu sem stigmagnast.
   
Að auki sýnir Yrsa fram á að hún er fullfær um að leika sér með glæpasöguformið; nýta það á skapandi hátt en ekki sem formúlu. Yrsa leitar í bókmenntaarfinn og má meðal annars sjá tengingar við gamlar þjóðsögur, þá fyrst og fremst draugasögurnar gömlu sem spruttu einmitt upp í þeirri einangrun og myrkri sem lýst er í bókinni. Eins og oft áður notar hún séríslenskt umhverfi til að magna upp dulúðuga stemningu, en hún nýtir sér einnig minni sem einkenna evrópska hryllingssagnahefð. Um leið opnar Yrsa gættina fyrir bókmenntagrein sem á sér litla hefð á Íslandi enn sem komið er: hryllingssöguna.

Eitt megineinkenni íslenskra glæpasagna er að þær bregða upp spegli á samtímann. Í Ég man þig er kreppan í bakgrunni og athyglisvert í því samhengi að meginþemu bókarinnar eru svik, reiði og hefnd; vítahringur ótta og ofbeldis.
Eins og heyra má býður verk Yrsu upp á margvíslega túlkun, auk þess sem hún leitar víða fanga og nýtir sér bókmenntahefðina á skapandi hátt. Allir þessir þræðir eru fléttaðir saman í sannfærandi fléttu, og helsti kostur bókarinnar er að hún nær að gera það sem allar góðar glæpa- og spennusögur gera: Að halda lesandanum í heljargreipum allt fram á síðustu blaðsíðu."

Í dómnefnd voru: Auður Aðalsteinsdóttir, Ingvi Þór Kormáksson og Rósa Björk Gunnarsdóttir.
Verðlaunagripinn, Blóðdropann, hannaði Kristín Guðmundsdóttir.

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar:

Arnaldur Indriðason: Furðustrandir
Árni Þórarinsson: Morgunengill
Helgi Ingólfsson: Runukrossar
Lilja Sigurðardóttir: Fyrirgefning
Óskar Hrafn Þorvaldsson: Martröð millanna
Ragnar Jónasson: Snjóblinda
Yrsa Sigurðardóttir: Ég man þig
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Mörg eru ljónsins eyru
Ævar Örn Jósepsson: Önnur líf


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál