Fréttir

Ævintýri við Breiðafjörð

NýpLaugardaginn 23. júlí kl. 16 fjallar Aðalheiður Guðmundsdóttir um ævintýri sem sögð hafa verið við Breiðafjörð og í Dölum – en í erindinu fjallar hún ekki síst um fólkið sem sagði þau. Erindið fer fram á bænum Nýp á Skarðsströnd. Erindið er hluti af dagskránni Nýpurhyrnu sem er röð viðburða á sviði lista og fræða. Bærinn stendur við Breiðafjörð, gegnt Reykhólum og tilheyrir Dalasýslu.

Aðalheiður skoðar sögur og sagnafólk sem bjó í Dalasýslu, einkum um það leyti sem Jón Árnason stóð að þjóðsagnasöfnun sinni á 19. öld, en einnig fyrir og eftir þann tíma. Spurt verður hvort Dalamenn skera sig frá sem heimildarmenn ævintýra og ef svo er, þá hvers vegna.

Í upphafi erindisins ræðir Aðalheiður jafnframt almenn einkenni ævintýra, en lítur einkum til þess á hvern hátt íslensk ævintýri skera sig frá ævintýrum annarra Evrópuþjóða. Þar sem ævintýri tengjast alltaf „þjóðarsálinni“ á hverjum tíma, svo sem með því að endurspegla vonir og drauma fólksins, verður litið til þess samfélags sem mótaði þau, og þá sér í lagi til hlutverks sagnaþulanna. Í stuttu máli verður sagt frá sagnaþulum og starfi þeirra, og hvernig fræðimenn hafa leitast við að tengja ævi þeirra og lífshlaup þeim sögum sem þeir tileinka sér og miðla til annarra.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er íslenskufræðingur og aðjunkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún er jafnframt dóttir síðustu ábúenda á Nýp á Skarðsströnd, en jörðin lagðist í eyði árið 1972.

Sjá nánar um Nýpurhyrnu á vefsíðu verkefnisins.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál