Fréttir

„Ég skrifa á brennheitu hrauni...“

Miðvikudaginn 7. september kl. 17:00 verður sýning um ævi og ritverk fransk-úkraínsku skáldkonunnar Irène Némirovsky (1903-1942) sem ber yfirskriftina „Ég skrifa á brennheitu hrauni...“ opnuð í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15.  Sýningin er sett upp í tilefni af því að skáldsagan Frönsk svíta kemur út sama dag hjá JPV í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar. Við opnunina fjallar sýningarstjórinn, Olivier Philipponat, um sýninguna og að því loknu opnar dóttir Irène Némirovsky, Denise Epstein, hana formlega. Epstein kemur hingað til lands á vegum Bókmenntahátíðar í Reykjavík og er sýningin liður í dagskrá hennar. Allir eru velkomnir á opnunina.

Hér má sjá myndband um Némirovsky eftir Söruh Josephson:

Irene Nemirovsky from Sarah Josephson on Vimeo.

Irène Némirovsky fæddist í Kiev í Úkraínu árið 1903. Hún flúði ásamt fjölskyldu sinni frá Rússlandi í rússnesku byltingunni, bjó um skeið í Finnlandi og flutti síðan til Frakklands þar sem hún bjó og starfaði til dauðadags, árið 1942. 

Átján ára að aldri birti Némirovsky fyrstu sögurnar sínar, gifti sig og eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember árið 1929. Mánuði síðar kom út skáldsagan David Golder, hún sló algerlega í gegn, sagan var kvikmynduð árið 1930 og þar með var Irène Némirovsky orðinn þekktur höfundur. Eftir þessa glæsilegu byrjun hélt hún ótrauð áfram, sendi frá sér tíu skáldsögur og fjölmargar smásögur þar sem hún fjallar um málefni sem hún þekkti vel, arfleifð fjölskyldunnar, rússneska fortíð sína, það að vera gyðingur, tilraunir hennar til að vera frönsk og þá erfiðu lífsbaráttu sem hún þurfi að heyja á síðari hluta fjórða áratugarins þegar gyðingahatur fór vaxandi. Hún snerist til kaþólsku árið 1939, flúði árið 1940 til í smáþorps í Mið-Frakklandi ásamt tveimur barnungum dætrum sínum. Þar var hún handtekin árið 1942 og send í útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz þar sem hún lét lífið. Áður en hún var handtekin tókst henni að ljúka við skáldsöguna Frönsk svíta. Hún var ekki gefin út fyrr en árið 2004, sextíu og tveimur árum eftir að höfundurinn lést, en hefur nú verið þýdd á þrjátíu og sjö tungumál, gefin út í fjörutíu löndum og hvarvetna notið gríðarlegra vinsælda.

Hér er um að ræða smækkaða útgáfu af viðamikilli sýningu sem sett hefur verið upp í Museum of Jewish Heritage í New York og Mémorial de la Shoah í París. Sýningin er unnin í samstarfi við dóttur Irène Némirovsky, Denise Epstein, sem verður einn gesta Bókmenntahátíðar í Reykjavík nú í september, IMEC (frönsku samtímahandritastofnunina) og Olivier Philipponat, sýningastjóra sýningarinnar og ævisagnaritara Némirovsky.

Sýningin í Borgarbókasafninu kemur hingað til lands á vegum Alliance française í Reykjavík og er liður í hátíðarhöldum vegna aldarafmælis félagsins á árinu.  Hún er sett upp í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Sýningin stendur til 30. september, aðgangur er ókeypis og allt áhugafólk um bókmenntir og sögu velkomið.


 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál