Fréttir

Bókmenntahátíð í Reykjavík

Bókmenntahátíð í Reykjavík 2011 hefst í dag, miðvikudaginn 7. september og verður setningarathöfnin í Norræna húsinu kl. 15. Fjöldi upplestra, höfundakynninga, sýninga og annarra viðburða fylgja svo í kjölfarið. Hátíðin í ár er helguð minningu Thors Vilhjálmssonar.

Fyrsti upplesturinn er í Iðnó í kvöld kl. 20 en þar koma fram höfundarnir Kristof Magnusson, Ragna Sigurðardóttir, Hallgrímur Helgason, Sara Sridsberg og Ingo Schulze.

Í dag verða einnig tvær ljósmyndsýningar opnaðar, annars vegar sýning sem gerð er í samstarfi við Morgunblaðið og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO um höfunda sem sótt hafa Íslendinga heim á Bókmenntahátíð í gegnum tíðina. Sú sýning er í Norræna húsinu en með myndunum fylgja textar eftir Íslendinga um heimsókn höfundanna. Hins vegar er sýning um ævi og verk frönsk-úkraínsku skáldkonunnar Iréne Némirovsky, sem opnar í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu kl. 17. Hún kemur hingað til lands á vegum Alliance francaise.

Dagskrá Bókmenntahátíðar má sjá á vefsíðu hátíðarinnar hér

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO er með sérstaka dagskrá í samstarfi við hátíðina til að fagna þessum nýja titli borgarinnar.

Dagskrá Bókmenntaborgarinnar:

Miðvikudagur 7. september kl. 15:00
Opnun
Borgarstjóri hleypir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO af stokkunum.
Vefurinn Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og rafrænar bókmenntagöngur Borgarbókasafns opna.
Norræna húsið – opnun Bókmenntahátíðar

Opnun ljósmyndsýningar sem gerð er í samstarfi við Morgunblaðið um erlenda höfunda sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík. Bókmenntaborgin er aðili að sýningunni.

Miðvikudagur 7. september kl. 17:00
„Ég skrifa á brennheitu hrauni”
Ljósmyndasýning um ævi frönsku skáldkonunnar Irene Nemirovsky, sem lést í fangabúðum Nasista í Auschwitz í seinna stríði. Olivier Philipponnat sýningarstjóri og ævisagnaritari Nemirovsky flytur ávarp og Denise Epstein, dóttir skáldkonunnar, opnar sýninguna. Alliance française og Borgarbókasafn Reykjavíkur.
Borgarbókasafn Reykjavíkur, Tryggvagata 15

Föstudagur 9. september kl. 13:00 – 14:30
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO – Hvað svo?
Pallborðsumræður með þátttöku Einars Arnar Benediktssonar, formanns Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, Svanhildar Konráðsdóttur sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs, rithöfundarins Sjóns, Ali Bowden, framkvæmdastjóra Edinburgh City of Literature og Jane Alger, framkvæmdastjóra Dublin City of Literature.
Málstofustjóri: Þorgerður E. Sigurðardóttir.
Allir eru velkomnir.
Ráðhús Reykjavíkur, Tjarnarsalur

Laugardagur 10. september kl. 13:30 – 16:00
OrðUm Reykjavík
Reykjavík er full af orðum og sögum fólksins sem í henni býr. Bókmenntaborgin Reykjavík vill fanga þessi orð með því að safna sögum borgarbúa á vef: minningum, stemningum, ljóðum eða hugleiðingum  – einu orði eða mörgum. Borgarstjóri og reykvískir rithöfundar gefa tóninn með því að kríta fyrstu orðin á stéttar borgarinnar og börnum og fullorðnum er síðan boðið að taka þátt í frírri ritsmiðju í beinu framhaldi af því undir handleiðslu rithöfundanna. Allir eru velkomnir, börn og fullorðnir, og ekki þarf að skrá þátttöku.
Borgarbókasafn Reykjavíkur: Aðalsafn: Þórarinn Leifsson, Ársafn: Andri Snær Magnason, Foldasafn: Kristjana Friðbjörnsdóttir, Gerðubergssafn: Borgarstjóri, Jón Gnarr, og Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kringlusafn: Þorgrímur Þráinsson.

Laugardagur 10. september kl. 20:00 – 22:00
„Hún er að fara á ball“
Bókmenntaganga þar sem því verður fagnað að Reykjavík er orðin Bókmenntaborg UNESCO. Gengið verður frá Grófarhúsi, um Grjótaþorp, Kvosina og Þingholtin og endað á Bókaballi Bókmenntahátíðar í Iðnó. Úlfhildur Dagsdóttir leiðir gönguna og rithöfundarnir Bragi Ólafsson, Sjón, Þórunn Valdimarsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Hallgrímur Helgason og Vilborg Dagbjartsdóttir lesa upp úr verkum sínum á viðeigandi söguslóðum. Í lok göngu flytur Bjartmar Guðlaugsson eigin texta og lag áður en áhugasamir bókmenntaborgarar skella sér í dansinn í Iðnó. Ekkert kostar í gönguna og allir eru velkomnir.
Lagt af stað frá Grófarhúsi


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál