Fréttir

Sindri Freysson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, veitti í dag í Höfða Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2011.  Besta ljóðahandritið að mati dómnefndar var Í klóm dalalæðunnar eftir Sindra Freysson.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

"Verðlaunahandritið í Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar árið 2011 er óvenju ríkt og gefandi. Það er látlaust í stíl og tóni, mælt fram á hógværan hátt en með mjög afgerandi undiröldu... Í klóm dalalæðunnar er hlaðið af nýjum sjónarhornum og myndmáli sem teygir sig inn í sálarlíf lesandans og hreyfir þar rækilega við honum, en á sama tíma býr handritið yfir rými og öndun sem hefur ekki síður langvinn áhrif. Með þessu sýnir höfundur fram á mikinn skilning á eðli og vigt tungumálsins – hvernig hægt er að segja margt í fáum orðum og hvernig er hægt, að sama skapi, að segja mikið með rýminu; með því einu að þegja.

Í klóm dalalæðunnar er full af sprengikrafti hugmynda, sjónarhorna og myndmáls, en hún stígur ekki fram með þann kraft sem skjöld sinn heldur leyfir honum að lifa á bakvið orðin. Þaðan kemur hin mikla vigt bókarinnar – í því hversu ríkulega lesandinn sjálfur fær að seilast í skilninginn upp á eigin spýtur."

Sindri Freysson er fæddur í Reykjavík 1970 og nam heimspeki og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hóf snemma ritstörf og var enn á unglingsaldri þegar smásögur hans og ljóð birtust í blöðum og tímaritum. Frumraun hans kom út árið 1992 og vakti töluverða athygli. Fyrsta skáldsaga hans, Augun í bænum (1998), hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og ljóðabókin Harði kjarninn (1999) var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna ári síðar. Ljóð hans hafa verið þýdd á ensku, frönsku, þýsku, grísku, finnsku o.fl. tungumál. Ljóðabókin (M)orð og myndir kom út árið 2006 en þar fjallaði Sindri um dauðann frá margvíslegum og óvæntum hliðum. Ljóðabókin Ljóðveldið Ísland (2009) vakti mikla athygli en þar túlkar hann á ferskan og hvassan hátt sögu íslenska lýðveldisins frá upphafi til hrunsins. Skáldsagan Flóttinn (2004), sem fjallar um ævintýri þýsks flóttamanns á Íslandi, fékk einróma lof gagnrýnanda, og sömu sögu er að segja um seinustu skáldsögu hans, Dóttur mæðra minna (2009), en hún rekur áhrifamikla sögu kvenna sem hnepptar voru í breskt fangelsi í síðari heimsstyrjöld.

Alls bárust  52  handrit að þessu sinni. Í dómefnd sátu Davíð Stefánsson, Bragi Ólafsson og Ingibjörg Haraldsdóttir.

Verðlaunin nema 600 þúsund krónum og er útgáfuréttur í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður.

Veröld gefur ljóðabókina Í klóm dalalæðunnar eftir Sindra Freysson út í dag. 

Sjá nánar um Sindra og verk hans á síðum hans hér á vefnum.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál