Fréttir

Góssið hans Árna: Alþýðleg fornfræði á vegum Jóns Sigurðssonar

Góssið hans Árna


Miðvikudaginn 9. nóvember heldur Yelena Sesselja Helgadóttir doktorsnemi erindið "Alþýðleg fornfræði á vegum Jóns Sigurðssonar: AM 960 4to" í erindaröð um handrit úr safni Árna Magnússonar í tilefni upptöku þess á varðveisluskrá UNESCO ,,Minni heimsins".

AM 960 4to er safnhandrit með alþýðlegum fornfræðum; kvæðum, þulum, rúnum og ýmsum fróðleik. Það var trúlega hugsað sem kveðskaparhandrit í fyrstu en varð að allsherjar safnriti áður en yfir lauk. AM 960 4to er sett saman af misstórum pappírskverum og blöðum sem ýmsir íslenskir safnarar sendu til Fornfræðafélagsins í Kaupmannahöfn um 1845–52, eða á meðan söfnun alþýðlegra fornfræða á Íslandi á vegum félagsins stóð sem hæst. Í fyrirlestrinum verður farið yfir efni handritsins sem er einstaklega fjölbreytt, rætt um umhverfið sem handritið er sprottið úr og um fólkið sem stundaði fornfræðasöfnun um miðja 19. öld. Enn fremur verður fjallað um feril handritsins og tengsl þess við afmælisbarn ársins, Jón Sigurðsson, sem er einn af aðalmönnunum á bak við þetta mikla safnrit.

Handritið sem fjallað er um verður haft til sýnis í glerskáp á salnum meðan á erindinu stendur og í 45 mínútur eftir það svo að gestum gefist kostur á að berja handritið augum.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, bókasal, 9. nóvember, kl. 12.15-12.45.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Erindin verða á dagskrá annan hvern miðvikudag í allan vetur, og lýkur síðasta vetrardag, 18. apríl. Dagskrána má nálgast hér.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál