Fréttir

Bókamessa í Bókmenntaborg

Helgina 12. – 13. nóvember standa Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fyrir bókamessu í  Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og í Iðnó. Í fyrsta sinn er haldin glæsileg bókamessa hérlendis þar sem íslenskir útgefendur kynna allt það nýjasta sem kemur út nú fyrir jólin. Um leið verður fjölbreytt dagskrá fyrir fólk á öllum aldri í Iðnó báða dagana, bæði í stóra og litla sal. Einnig verður dagskrá í kaffihúsi Ráðhússins, Öndinni, og sögubíll Borgarbókasafnsins,  Æringi, verður á svæðinu.

Meðal dagskráratriða má nefna „Græna sófann“, en þar fá ýmsir umsjónarmenn, svo sem Egill Helgason, Jórunn Sigurðardóttir og Druslubókadömurnar Kristín Svava Tómasdóttir, Salka Guðmundsdóttir og Hildur Knútsdóttir, til sín góða gesti og spjalla um ólíkar bækur. Sigurlaug M. Jónasdóttir kynnir matgæðinga og matreiðslubækur, Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur ræðir við ævisagnahöfunda og Jón Proppé listheimspekingur fer yfir listasöguna á 50 mínútum. Leynifélagskonurnar Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir sjá síðan um metnaðarfulla dagskrá fyrir börn. Að auki verður boðið upp á upplestur,  jóga fyrir börn, barnanudd og föndursmiðju, að ógleymdri vísindastund með Ævari vísindamanni.  Áhugafólki um stjörnuspeki gefst kostur á að hitta Gunnlaug Guðmundsson stjörnuspeking, Kristín Tómasdóttir svarar spurningum stelpna frá A – Ö og svo mætti lengja telja.

Kaffiveitingar  verða á boðstólum í Iðnó og á Öndinni og gestir geta því átt notalega stund um leið og þeir kynna sér bókaútgáfu ársins í þessum tveimur byggingum við Tjörnina.

Heildardagskrána má sjá hér á vef Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál