Fréttir

Oddur Björnsson látinn

Oddur Björnsson er fallinn frá, 79 ára að aldri.

Oddur var með helstu módernistum leikritunar á Íslandi. Rithöfundaferill hans spannaði rúma þrjá áratugi, en síðasta verk hans, 13. krossferðin, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1993. Fyrr á þessu ári hlaut Oddur heiðursverðlaun Grímunnar fyrir ævistarf sitt í þágu leiklistarinnar. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö uppkomin börn.

Árið 2003 skrifaði Oddur stutta grein hér fyrir vefinn um það hvers vegna hann hefði lagt fyrir sig ritlistina og þá leikritun sérstaklega. Þar kemur fram að í framúrstefnuleikhúsi Vínarborgar á sjötta áratugnum hafi hann séð saman renna það sem honum hugnaðist best í heimi listanna, en auk skrifanna kom Oddur nálægt myndlistinni og hafði dálæti á tónlist – þó svo það hafi ekki legið fyrir honum að gerast tónlistarmaður, eins og kemur einnig fram í greininni:

„Í Vínarborg voru sjálf leikhúsin minn háskóli í "teater". Og þar áttaði ég mig á því að minn rithöfundaferill yrði helgaður leikritun, enda hvorki Halldór né Þórbergur að þvælast fyrir mér á þeim vettvangi. Það var raunar "absurd-leikhúsið" sem losaði um allar hömlur með sínum heillandi fáránleika, ótrúlega fyndið og ótrúlega djúpt þegar best lét, fullt af músik og undarlegri myndlist og enn undarlegri framsetningu á mannlegri hegðun. Að öðru leyti höfðaði "plastík" hins agaða leiks (reyndar ekki síður í sígildum verkum, jafnvel hefðbundnum) til myndlistarmannsins og rytmi orðræðunnar til tónlistarmannsins (og jafnvel "ljóðskáldsins" sem blundaði einhversstaðar í manni), ég tala nú ekki um ef textinn var eftir Shakespeare.“

Lesið greinina hér.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál