Fréttir

Fjöruverðlaunin 2012 - tilnefningar kynntar

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna kynntu niðurstöður sínar í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu síðdegis í gær, miðvikudag.

Fjöruverðlaunin eru bókmenntaverðlaun kvenna og eiga þau uppruna sinn í bókmenntahátíð kvenna sem haldin var í fyrsta sinn vorið 2007 að frumkvæði hóps kvenna innan Rithöfundasambands Íslands. Fjöruverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn í lok bókmenntahátíðarinnar og hafa þau verið árlegur viðburður síðastliðin fimm ár.

Veitt eru verðlaun í þremur flokkum – fyrir fagurbókmenntir, fræðibækur og barna- og unglingabækur. Við síðustu úthlutun var tekið upp á þeirri nýbreytni að tilnefna þrjár bækur í hverjum flokki nokkrum vikum fyrir verðlaunaveitinguna. Er þetta því í annað skipti sem kynntar eru tilnefningar til Fjöruverðlaunanna.

Eftirfarandi bækur hlutu tilnefningu að þessu sinni:

Fagurbókmenntir
Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur (útg. Bjartur)
Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf eftir Sigríði Jónsdóttur (útg. Sæmundur)
Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur (útg. Bjartur)

Fræðibækur
Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur (útg. Opna)
Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur (útg. Háskólaútgáfan)
Ríkisfang ekkert: flóttinn frá Írak á Akranes eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur (útg. Forlagið)

Barna- og unglingabækur
Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur (útg. Forlagið)
Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur (útg. Bjartur)
Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur (útg. Bjartur)

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2012 skipuðu:

Í dómnefnd fagurbókmennta: Þórdís Gísladóttur, íslenskufræðingur; Æsa Guðrún Bjarnadóttir, bókmenntafræðingur; og Margrét I. Ásgeirsdóttir, bókasafnsfræðingur.

Í dómnefnd fræðibóka: Þuríður Jóhannsdóttir, lektor á Menntavísindasviði; Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði; og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur.

Í dómnefnd barna- og unglingabóka: Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku á Menntavísindasviði; Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í barnabókmenntum; og Helga Ferdinandsdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning.


Úr rökstuðningi dómnefnda:

Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur er margslungin, lágstemmd og ljóðræn saga þar sem fjallað er um eldfim leyndarmál úr fortíðinni. Speglunum er beitt af smekkvísi og leikni og ljósi varpað á fjölmargar hliðar vináttunnar.“

Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf er hreinskiptin og tilgerðarlaus bók, nýstárleg að formi og innihaldi, með nokkrum ljóðum og einu ævintýri. Bókina einkennir erótík með femínískum undirtóni auk leiftrandi myndmáls og vísana í alvöru íslenska sveitarómantík.“

„Í Jarðnæði er tungumálið teygt og togað af leikgleði og hugmyndaríki. Verkið er persónulegt og meitlað, á mörkum dagbókar, skáldskapar og heimspeki, þar sem sögu konu í leit að samastað er fléttað saman við frásagnir af nánum samskiptum við samferðamenn hennar og vangaveltur um samfélagsleg málefni þar sem samband manns og lands er í brennidepli.“

Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur er yfirgripsmikið verk sem fjallar um ólíka þætti fornleifafræðinnar á lipran og lifandi hátt. Bókin dregur athygli að arfleifð menningar og sögu í íslenskri náttúru og veitir lesendum nýja sýn á landið. Texti bókarinnar gerir heim fornleifafræðinnar aðgengilegan fyrir leikmenn jafnframt því að uppfylla kröfur fræðasamfélagsins. Falleg hönnun og fjöldi ljósmynda styðja vel við lýsandi og skemmtilegan texta þar sem saga fornleifarannsókna á Íslandi og samspil menningar, þjóðsagna og náttúru fléttast saman. Mannvist er góð kynning á mikilvægri fræðigrein og ólíkir þættir hennar eru gerðir áhugaverðir, allt frá fjóshaugum til álfasteina.“

Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur fjallar um mikilvægt tímabil í mótun íslenskrar þjóðarímyndar. Í bókinni er teflt saman rannsókn á kvennaskólum þegar þeir voru að koma til sögunnar og einkabréfum kvenna sem endurspegla væntingar þeirra á þessum umrótatímum. Bókin dregur fram þátt kenna í mótun nútímasamfélags og ólíkar sýnir á hlutverki og stöðu kvenna í því samfélagi. Höfundur dregur saman aðferðafræði og þróun kenninga í kvennasögufræðum á greinargóðan hátt í inngangi og er sá kafli mikilvægt innlegg í spennandi grein sagnfræðinnar. Nútímans konur er lipurleg skrifuð og bókin er aðgengileg bæði fræðafólki og almenningi.“

Ríkisfang ekkert: flóttinn frá Írak á Akranes bregður upp lifandi myndum af aðstæðum nýrra Íslendinga, palestínskra flóttakvenna frá Írak og fjölskyldna þeirra. Í bókinni er sagt frá þeim kjarki sem fólk þarf til að yfirstíga aðstæður sem það dregst inn í án þess að geta rönd við reist. Dregin er upp raunsæ mynd af daglegu lífi á átakasvæðum og saga kvennanna endurspeglar hvernig ályktanir og samþykktir á alþjóðlegum vettvangi hafa áhrif á líf venjulegs fólks. Ríkisfang ekkert byggir á viðamikilli rannsóknarvinnu, hún er rituð af listfengi og er verðugt innlegg í umræðu um ábyrgð Íslendinga og hlutverk í alþjóðasamfélaginu.“

Flugan sem stöðvaði stríðið er nýstárleg dýrasaga þar sem lesendur fylgjast með ævintýrum nokkurra flugna og sjá veröldina frá þeirra sjónarhorni – sem og að sjá okkur sjálf með þeirra augum. Viðfangsefni bókarinnar er hryllingur stríðsátaka. Flugurnar taka til sinna ráða með eftirminnilegum hætti og tekst að stöðva illræmt stríð, en það er ekki án fórna. Höfundi tekst mjög vel að draga upp mynd af afleiðingum þeirra fyrir unga lesendur án þess að óhugnaðurinn verði of yfirþyrmandi. Sagan er bæði falleg og spennandi og lausnin vel útfærð.“

Gegnum glervegginn er framtíðarhryllingur þar sem ríka fólkið býr við allsnægtir og þægindi, sambærileg við þau sem við þekkjum í nútímanum, en almenningur lifir við aðstæður og kjör sem um margt minna á miðaldir, hungur, kulda, harðstjórn og kúgun. Prinsessa ríkisins er lokuð inni í glerhjúpi þar sem hún býr ein við allsnægtir, en hún flýr úr prísundinn og kynnist örbirgð þegna sinna. Það eru svo börnin sem leysa úr læðingi þann kjark sem þarf til að bjóða valdinu birginn og úr verður æsispennandi leiðangur. Þetta er sígild saga um baráttu góðs og ills og miðlar áleitnum spurningum um misskiptingu auðs og meðferð náttúruauðlinda.“

Með heiminn í vasanum fjallar um unglingspiltinn Ara sem á allt og fær allt, nema það sem hann þarf mest á að halda, athygli og umönnun foreldra sinna. Ari flýr því á vit hlutverkaleikja í tölvuheimum þar sem hann er sjálfur herra yfir eigin lífi. Samhliða þessu er sögð saga ungrar stúlku sem hefur verið hneppt í þrældóm í kínverskri verksmiðju. Heimarnir þrír; þ.e. heimur allsnægta, heimur örbirgðar og tölvuleikaheimurinn, fléttast allir saman í sögunni sem er sterk ádeila á græðgi, barnaþrælkun og virðingarleysi fyrir mannréttindum. Lausnin er ekki einföld og það er ekki á færi barna að einna að leysa þau mál. Sagan er spennandi og höfundur lætur lesandanum eftir að draga ályktanir af frásögninni.“


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál