Fréttir

Skrímsli í Þjóðleikhúsinu

Nei! sagði litla skrímsliðMilli jóla og nýárs frumsýnir Þjóðleikhúsið leikrit byggt á bókum Áslaugar Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal um stóra skrímslið og litla skrímslið og af því tilefni kemur fyrsta bókin um þessa góðu vini, Nei! sagði litla skrímslið, út að nýju en hún hefur verið ófáanleg um árabil.

Ævintýri litla skrímslisins og stóra skrímslisins og innileg samskipti þeirra láta engan ósnortinn. Skrímslin tvö hafa eignast ótal aðdáendur en bækurnar um þau hafa komið út víðsvegar um heiminn, hlotið lofsamlega dóma og fjölda verðlauna.

Litla skrímslið og stóra skrímslið stíga nú í fyrsta sinn á leiksvið, en leikritið byggist á fyrstu bókunum og þar reynir vissulega á vináttu og hugrekki þeirra félaga. Þó að þau virðist ólíkar persónur við fyrstu sýn reynast hjörtun sem slá undir svörtum og loðnum feldunum þrátt fyrir allt slá í takt. Lítil skrímsli þurfa stundum að hrópa hátt svo í þeim heyrist og stór skrímsli geta verið lítil í sér. Þó að stundum slettist upp á vinskapinn kunna skrímslin að snúa bökum saman þegar á reynir eins og sannir vinir gera.

Litla skrímslið og stóra skrímslið er þriðja leikritið sem Áslaug Jónsdóttir skrifar fyrir Kúluna en fyrri leikrit hennar, Gott kvöld og Sindri silfurfiskur, hafa glatt fjölmörg hjörtu. Gott kvöld hlaut á sínum tíma Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins og Sindra silfurfiski var boðið á Bibu barnaleiklistarhátíðina í Lundi og á alþjóðlega barnaleiklistarhátíð Assitej í Malmö á liðnu vori.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál