Fréttir

NYIÞ sigurvegarar á myrku Ljóðaslammi

Fimmta ljóðaslamm Borgarbókasafns var haldið á Safnanótt í Reykjavík föstudagskvöldið 10. febrúar s.l. Þar kepptu tíu atriði til sigurs og var dagskráin afar fjölbreytt og metnaðarfull. Viðfangsefnið var „myrkur“ í takt við þema Vetrarhátíðar í ár og tókust ljóðskáldin á við það með mismunandi hætti. Sumir stigu á stokk með hefðbundna texta en aðrir lögðu meira upp úr sviðsmynd og heildaráhrifum og þótti hinni myrku sveit NYIÞ takast einkar vel upp að þessu leyti, enda vakti sláandi atriði þeirra, „Til eru hræ“ beinlínis hroll með áhorfendum. NYIÞ er skipað fjórum ungum mönnum sem koma nafnlausir og óþekkjanlegir fram í svörtum klæðum, og stóð hópurinn uppi sem sigurvegari kvöldsins. Textann fluttu þeir við undirleik sellós, keðju, trommu og harmónikku. Í öðru sæti var Ísak Regal með rökkurljóðið „Leyndardómur í sígarettupakka“, æðandi rennsli í gegnum myrkari hliðar borgarinnar, þar sem hnignun og vonleysi renna saman við draumóra um ofurhetjudáðir. Í þriðja sæti voru loks þær Jófríður Ákadóttir og Áslaug Rún Magnúsdóttir með dulúðuga „Rökkurblíðu“ sem var rafmagnaðasta atriði slammsins þetta árið, þar sem brengluð rödd myrkursins reis upp úr ágengu suði. Þess má geta að þær stöllur eru meðlimir hljómsveitarinnar Samaris, sem sigraði Músíktilraunir á síðasta ári.

Siguratriðin þrjú eru gerólík en öll túlkuðu þau þemað á sannfærandi hátt. Mörg fleiri atriði voru sérlega athyglisverð og greinilegt að orðlistin lifir góðu lífi meðal ungs fólks. Ljóðaslammið er árlegur viðburður og eru þátttakendur á aldrinum 15 – 25 ára. Ljósmyndir frá slamminumá sjá á Facebook síðu Borgarbókasafns og vídeóupptökur af siguratriðunum þremur verða fljótlega aðgengilegar á vefnum ljodaslamm.is. Einnig verður hægt að nálgast upptökur af öllum tíu atriðunum á vef Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO innan skamms.

Í dómnefnd voru leikkonurnar Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og María Þórðardóttir, Stefán Máni rithöfundur, tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé og Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál