Fréttir

Nötur og Næturgárun

Tvö ljóðskáld hafa nýverið gefið frá sér verk sem hafa e.t.v. ekki farið hátt enn sem komið er. Þau eiga það sameiginlegt að vera frábrugðin fyrri verkum höfunda, hvort á sinn hátt, þau eru gefin út undir dulnefnum, a.m.k. að nafninu til, auk þess sem þau byrja bæði á bókstafnum N.

Þannig sendir hliðarsjálfið Emmalyn Bee frá sér ljóðabókina Nötur gömlu nútíðarinnar, bókin inniheldur ljóðabálk sem hún orti með aðstoð pendúls og hvert eintak er heimaföndrað af henni sjálfri. Um útgáfu sér forlagið Útúr ýmsu, sem þær Brynja Dís Björnsdóttir og Þórdís Björnsdóttir hafa sett á laggirnar til þess að „senda frá sér óvanaleg andans skáldverk og ótal margt fleira“ eins og þar segir.

Þá kemur út hljómplatan Næturgárun með tónlistarmanninum Gillon. Sá hefur áður sent frá sér fjölda ljóðabóka, nú síðast Sæunnarkveðju – sjóljóð, sem Úlfhildur Dagsdóttir hafði til umfjöllunar fyrir Bókmenntavefinn fyrir tæpu ári síðan. Platan er safn níu laga sem samin voru á þrettán ára tímabili og tekin upp í Stúdíó Benmen á Sauðárkróki. Lög og textar eftir Gísla Þór Ólafsson, með örfáum undantekningum.

Nötur gömlu nútíðarinnar má nálgast með því að senda línu á netfangið uturymsu@gmail.com; Næturgárun má finna í hljómplötuverslunum og auk þess má hlusta á sýnishorn á youtube-rás höfundar.

Næturgárun Nötur gömlu nútíðarinnar

 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál