Fréttir

Eins og í sögu, í boði IBBY

Ragnheiður GestsdóttirFimmtudaginn 29. mars næstkomandi verður ný, íslensk smásaga frumflutt samtímis í öllum grunnskólum landsins, kl. 9.45. Höfundur les söguna á Rás 1 í sömu andrá svo að öll þjóðin geti lagt við hlustir.

Ragnheiður Gestsdóttir, rithöfundur, skrifaði söguna Eins og í sögu fyrir börn á aldrinum 6-16 ára í tilefni dags barnabókarinnar að beiðni IBBY á Íslandi. Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar er haldinn 2. apríl ár hvert, og ber nú upp á mánudegi. Ragnheiður hlaut Sögustein, bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, á degi barnabókarinnar í fyrra.

Eins og í sögu fjallar um það hvernig galdur skáldskaparins getur reynst hin styrkasta stoð þegar tekist er á við ógnir hversdagsins. Aðalpersóna sögunnar er lögð í einelti í skólanum en finnur óvænta hjálp í hillum skólabókasafnsins.

Sagan verður lesin fyrir grunnskólabörn á öllum aldri í leikfimisölum og smíðastofum, á sal og í sundlaugum, í frímínútum og í dönskutímum, allt eftir því hvernig hver skóli kýs að fella upplesturinn að stundaskrám nemendanna.

Tilgangurinn er að fagna degi barnabókarinnar með notalegri sögustund og vekja um leið athygli á sameiningarmætti skáldskaparins. Með því að flytja söguna fyrir mörg þúsund lesendur í einu er mögulegt að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls.

Þetta er í annað sinn sem IBBY á Íslandi fagnar degi barnabókarinnar með þessum hætti, en í fyrra var sagan Hörpuslag eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur lesin bæði í skólum og á Rás 1.

Nánari upplýsingar veita Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY á Íslandi, í síma 897 2772 og Ragnheiður Gestsdóttir, rithöfundur, í síma 565 0716 eða 891 8503


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál