Fréttir

Síðasta glæsta sagnahandritið

Á morgun, síðasta vetrardag, 18. apríl, flytur Jóhanna Katrín Friðriksdóttir tólfta og síðasta erindið í erindaröðinni um handrit úr safni Árna Magnússonar. Erindi Jóhönnu Katrínar nefnist Síðasta glæsta sagnahandritið: AM 152 fol. og hefst kl. 12:15 í tónlistarstofu, sem er á 3ju hæð í vesturálmu Þjóðmenningarhússins. Það varir í um hálfa klukkustund og handritið verður til sýnis.

AM 152 fol., frá fyrstu áratugum sextándu aldar, er stórt og mikið skinnhandrit; 201 blað í arkarbroti, tvídálka og innbundið í tréspjöld. Handritið á sennilega uppruna sinn á Vesturlandi og tengist það hinni stórríku og valdamiklu ætt Björns Þorleifssonar hirðstjóra og Ólafar ríku Loftsdóttur en annar skrifara þess er talinn vera Þorsteinn Þorleifsson, óskilgetinn sonarsonur Björns. Á sautjándu öld var handritið í eigu Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu, en talið er að Árni Magnússon hafi fengið það í síðasta lagi 1704.

AM 152 fol. varðveitir hina sívinsælu Grettis sögu Ásmundarsonar auk níu fornaldar- og riddarasagna og einnar ungrar Íslendingasögu. Draga má þá ályktun að áheyrendur hafi lifað sig inn í söguna um Gretti af spássíukroti þar sem örlög hans eru hörmuð en banamaður hans, Þorbjörn öngull, og Þuríður fóstra hans, eru fordæmd. Handritið er sérstakt fyrir margra hluta sakir en til dæmis mætti nefna að sjaldgæft er að handrit sem inniheldur að mestu leyti fornaldarsögur og rómönsur sé jafn vandað og íburðarmikið og raun ber vitni. Venjulega er þessar sögur, vinsældabókmenntir síns tíma, að finna í litlum og snjáðum eindálka skinnbókum. Í því samhengi verður velt vöngum yfir viðhorfi mögulegra ritbeiðenda til innihaldsins en einnig verður reynt að varpa ljósi á innbyrðis tengsl sagnanna, umfjöllunarefni þeirra og hugarheim.

Allir eru velkomnir að hlýða á erindið og aðgangseyrir er enginn.

„Góssið hans Árna“ er erindaröð Árnastofnunar sem haldin er í tilefni af því að handritasafn Árna Magnússonar er nú á varðveisluskrá UNESCO „Minni heimsins“.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál