Fréttir

Fjöltyngd ljóðskáld í Tjarnarbíói

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur buðu íslenskum og erlendum skáldum sem búsett eru á Íslandi í svokallað alþjóðlegt ljóðaspjall (Intercultural Poetic Dialogue) nú fyrir skemmstu. Markmiðið var ekki einungis að kynna þessi erlendu skáld, heldur ekki síður að auka skilning á fjölmenningunni sem finna má á Íslandi og að skapa brú milli menningarheima. Skáldin tóku þátt í þriggja daga þýðingasmiðju þar sem þau kynntust, lásu hvert fyrir annað og ræddu um mismundandi sýn á ljóðlist og heiminn. Aðalverkefnið var þó að þýða ljóð þessara skálda á málin sjö sem þau eiga að móðurmáli, en þau eru arabíska, armenska, galisíska, íslenska, portúgalska, spænska og þýska.

Afrakstur verkefnisins verður kynntur á upplestrardagskrá í Tjarnarbíói þann 12. maí kl. 18, sem hluti af dagskrá Fjölmenningardagsins í Reykjavík.

Ljóðskáldin sem taka þátt í verkefninu eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (Ísland), Elías Portela (Galisía/Ísland), Björn Kozempel (Þýskaland), Harutyun Mackoushian (Armenía), Juan Camilo Román Estrada (Kólumbía), Kári Tulinius (Ísland), Mazen Maarouf (Palestína) og Þórdís Björnsdóttir (Ísland). Smiðjustjóri var Björn Kozempel.

Allir eru velkomnir á dagskrána, en þarna gefst fátítt tækifæri til að kynnast skáldum af erlendum uppruna á Íslandi og verkum þeirra.

Þýðingasmiðjan er fyrsta skrefið að því að kynna verk erlendra skálda sem gert hafa Ísland að heimili sínu og er það von aðstandenda hennar að verkefnið haldi áfram að þróast og dafna.

 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál