Fréttir

Jussi Adler-Olsen í Norræna húsinu

Flöskuskeyti frá P eftir Jussi Adler-OlsenJussi Adler-Olsen verður á höfundakvöldi í Norræna húsinu fimmtudaginn 30. ágúst kl. 20.00. Þar ætlar hann að ræða við Árna Matthíasson blaðamann um verk sín og höfundaferil, og lesa upp úr nýjustu bók sinni, Flöskuskeyti frá P, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Hægt verður að  kaupa bókina í Norræna húsinu og fá hana áritaða af Jussi Adler-Olsen.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Léttar veitingar í boði danska sendiráðsins.

Jussi Adler-Olsen er fæddur árið 1950 í Kaupmannahöfn. Áður en að Jussi helgaði sig ritstörfum starfaði hann m.a. sem blaðamaður og prófarkalesari. Fyrsta bók Jussi kom út árið 1985 og komu út fimm bækur eftir hann áður en hann hóf skriftir við seríuna um Deild Q hjá dönsku lögreglunni. Fyrsta bókin í seríunni ber titilinn Konan í búrinu (Kvinden i buret) og vakti mikla athygli. Á eftir fylgdu bækurnar Veiðimennirnir (Fasandræberne), Flaskepost fra P og Journal 64.

Jussi Adler-Olsen hefur skapað sér sess meðal fremstu glæpasagnahöfunda Norðurlandanna með bókum sínum um Deild Q og hafa bækurnar setið í efstu sætum vinsældarlista í Norðurlöndunum sem og Þýskalandi. Einnig hefur hann sópað að sér verðlaunum fyrir bækurnar; hann fékk Harald Mogensen-verðlaunin og Glerlykilinn árið 2010 fyrir Flaskepost fra P og Gyllta lárviðarsveiginn 2011 fyrir Journal 64.

Þrjár bækur eftir Jussi Adler-Olsen hafa komið út á íslensku; Konan í búrinu (2011) og Veiðimennirnir (2012) og nú Flöskuskeyti frá P.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál