Fréttir

Heimsbókmenntir á hausti

Í september 2012 rennur tími heimsbókmenntanna upp í Bókmenntaborginni Reykjavík. Boðið verður upp á röð viðburða helgaða bókmenntum frá ólíkum heimshornum út mánuðinn.

Þrír rithöfundar, Mazen Maarouf frá Palestínu, Elena Poniatowska frá Mexíkó og Nikolaj Frobenius frá Noregi, munu taka þátt í höfundasamtölum og upplestrum. Samhliða bókmenntadagskránni verður einnig boðið upp á sýningu á málverkum Mazens Maarouf og málþing um mexíkóskar bókmenntir. Í september færist kastljósið einnig að fjölþjóðlegum barnabókmenntum. Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Mýrin verður haldin í mánuðinum og þar munu þekktir barna- og unglingabókahöfundar, fræðimenn og aðrir listamenn frá fjölmörgum löndum koma fram.

Mazen MaaroufFyrsti viðburðurinn verður í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur fimmtudaginn 6. september kl. 17. Þar ræðir rithöfundurinn Sjón við Mazen Maarouf um höfundaferil og verk hans. Ljóð eftir Mazen verða einnig lesin á arabísku og í íslenskri þýðingu.

Á sama tíma opnar sýning á málverkum Mazens á bókatorgi Borgarbókasafns, en hann málar myndir á striga samhliða skrifum sínum. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Mazen Maarouf (f. 1978) er palestínskt ljóðskáld og rithöfundur. Fjölskylda hans flúði Palestínu árið 1948 og hann hefur lengst af búið í Líbanon þar sem hann ólst upp, gekk í skóla og starfaði. Ljóð eftir Mazen hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Þau hafa birst í tímaritum og safnritum í Frakklandi, Skotlandi, á Íslandi, í Svíþjóð, Kína og Möltu. Nýjasta bók hans er ljóðasafnið An Angel Suspended on the Clothesline, sem var gefið út í Líbanon 2011.

Mazen er gestarithöfundur í Reykjavík á vegum Reykjavíkurborgar og ICORN, International Cities of Refuge.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál