Fréttir

Geðshræringar í bókmenntum og sögu

Miðvikudaginn 5. september klukkan 11:40 – 13:10 mun Keith Oatley sálfræðingur og rithöfundur halda opinn fyrirlestur í stofu 104 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn nefnist „Emotions in history, in relationships, and in literature“ (Geðshræringar í sögu, tengslum manna á milli og bókmenntum). Hann er á vegum Hugsýnar, félags um hugræn fræði, í samstarfi við Forlagið, Bókmennta-og listfræðastofnun og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Oatley fjallar um hvernig hugmyndir og kenningar um geðshræringar hafa þróast og breyst í líffræði-, sálfræði- og bókmenntarannsóknum.

Keith Oatley er þekktur víða um lönd. Hann hefur meðal annars fengist við rannsóknir á sjónskynjun, gervigreind og faraldssálfræði en er ekki síst þekktur fyrir rannsóknir sínar og skrif um geðshræringar og tilfinningar. Oatley hefur samið fjölda fræðigreina, sjö bækur um sálfræði, þar á meðal Understanding Emotions, (2. útg. 2006), Such stuff as dreams: The psychology of fiction (2011) og nú síðast The passionate muse: Exploring emotion in stories sem kom út á þessu ári. Þrjár skáldsögur hafa birst eftir hann. The Case of Emily V., sem hann kallar sjálfur öfugsnúna spæjarasögu, fékk The Commonwealth Writers Prize sem besta byrjendaverkið 1994. Hinar eru A Natural History (1998) og Therefore choose (2010).
 
Útdráttur erindisins:

Í hugmyndasögu, jafnt vestrænni sem austrænni, hafa menn talið að geðshræringar (e. emotions) kæmu fólki í uppnám og haft á þeim illan bifur. Í vestrænni menningu hafa þær verið tengdar synd en þjáningu í austrænni. Charles Darwin hafði líka litlar mætur á geðshræringum í þróunarkenningu sinni og leit svo á að jafnvel þótt þær næðu fram á fullorðinsár ættu þær rætur að rekja til frumbernsku mannkyns og fortíðar þess sem dýrategundar. Það var hinsvegar John Bowlby sem olli straumhvörfum með hugtaki sínu um geðtengsl (e. attachment). Hann kom með þá hugmynd að lífsgæði fullorðinnar manneskju réðust af því hversu góð tilfinningatengsl hún hefði haft sem barn við móður eða aðra sem önnuðust hana. Nú er almennt samkomulag um að menn séu félagsverur í eðli sínu og að tengslamyndun skipti þá sköpum. Nútímarannsóknir setja á oddinn að kostir geðshræringa í skiptum manna séu megingrundvöllur samfélags. Í rannsóknum á bókmenntum teljast geðshræringar líka lykilatriði. Það hefur reynst auka skilning manna á öðrum ef þeir lesa skáldskap.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál