Fréttir

Fjarlægðir, hulstur og segulskekkja hljóta nýræktarstyrk

Í gær, miðvikudaginn 19. septemberber, tilkynnti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra um hverjir hlytu Nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs árið 2012. Þetta er í fimmta sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað úr sjóðnum. Athöfnin fór fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.

Eftirfarandi verk og höfundar hlutu styrkina í ár:

Dagur Hjartarson: Fjarlægðir og fleiri sögur (smásögur)

Heiðrún Ólafsdóttir: Á milli okkar allt (ljóðabók). Bókin er komin út.

Hugrún Hrönn Ólafsdóttir: Hulstur utan um sál (myndir og texti). Útgefandi: Pírumpár

Soffía Bjarnadóttir: Segulskekkja: textasafn. Útgefandi: stella útgáfa

Sunna Sigurðardóttir: Mér þykir það leitt (grafísk nóvella / myndasmásögur). Útgefandi: ViðVera

Nýræktarstyrkjum er ætlað að styðja við útgáfu á nýjum íslenskum skáldverkum sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon en hafa ótvírætt menningarlegt gildi. Undir þetta svið falla skáldverk í víðri merkingu þess orðs, til dæmis sögur, ljóð, barnaefni, leikrit, eða eitthvað allt annað. Leitað var eftir breidd og fjölbreytni í umsóknum.

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað töluvert frá því að þeim var fyrst úthlutað árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir um 5 styrki, hver að upphæð 200 þúsund. Árið eftir, 2009, bárust 27 umsóknir um 6 styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir um 5 styrkir og árið 2011 bárust 30 umsóknir um 5 styrki. Í ár, 2012, bárust 23 umsóknir um 5 styrki að upphæð 200.000 kr.

Hlutverk Bókmenntasjóðs er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Bókmenntasjóður styrkir meðal annars útgáfu frumsaminna verka og þýðingar bókmennta á íslensku, en stuðlar einnig að markvissri kynningu íslenskra bókmennta heima og erlendis og sinnir öðrum verkefnum sem falla undir verksvið sjóðsins.

Bókmenntasjóður vonast til að geta haldið áfram að styðja við fjölbreytta nýrækt í íslenskum skáldskap og bókmenningu á næstu árum.

Hér má sjá styrkhafana ásamt Katrínu Jakobsdóttur og Þorgerði Öglu Magnúsdóttur, framkvæmdarstjóra Bókmenntasjóðs.

Styrkhafar ásamt menningar- og menntamálaráðherra, og framkvæmdarstjóra Bókmenntasjóðs


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál