Fréttir

Merking bókmennta afhjúpuð og Vögguvísa gengin

LangibarSunnudaginn 14. október kl. 14 verður fyrsta bókmenntamerking Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur afhjúpuð.  Það gerir Einar Örn Benediktsson formaður Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, en þessi skjöldur er sá fyrsti af níu merkingum sem Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO mun koma upp í borginni á þessu ári.

Skildinum verður komið fyrir í Aðalstræti 6 – 8 þar sem sódabarinn Adlon, eða Langibar eins og hann var jafnan nefndur, stóð um miðja síðustu öld. Tilefnið að þessari merkingu er fyrsta Lestrarhátíðin í Reykjavík en Langibar kemur mjög við sögu í Vögguvísu eftir Elías Mar, sem er í brennidepli á hátíðinni. Fasteignafélagið Reitir á húsið sem nú stendur á lóðinni og er merkingunni komið fyrir í góðri samvinnu við félagið.

Bókmenntamerkingar í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Símans. Á skjöldunum er, auk texta og myndar, rafrænn kóði sem veitir aðgang að ítarlegri upplýsingum um bókmenntaslóðirnar ásamt myndefni og hljóðefni og er sú tæknilausn framlag Símans til bókmenntamerkinganna. Einnig á Ljósmyndasafn Reykjavíkur aðild að verkefninu með því að leggja til myndefni. Merkingarnar eru á íslensku og ensku.

Í framhaldi af opnunarathöfninni, þar sem Einar Örn spjallar stuttlega um bókmenntamerkingar í Bókmenntaborginni, leiðir Hjálmar Sveinsson göngu um Vögguvísuslóðir í miðbænum. Þar verður gengið um þær slóðir sem sögupersónur Vögguvísu  feta. Gangan hefst við téðan Langabar í Aðalstræti en þaðan verður gengið að Naustinu þar sem einu sinni var „billjardbúla“, leiðin liggur síðan að Hótel Skjaldbreið við Kirkjustræti og endar á Austurvelli við NASA eða Sjálfstæðishúsið.

Í göngunni verður söguþráðurinn í Vögguvísu rifjaður upp, sagt verður frá Elíasi Mar og sögunum sem hann skrifaði og rætt um unglingamenningu og þróun borgarinnar. Gangan tekur um 50 mínútur.

Allir eru hjartanlega velkomnir á afhjúpunina og í gönguna.

Nánar um bókmenntamerkingar í Reykjavík
Aðrar bókmenntamerkingar sem settar verða upp á þessu ári verða við Skáldastíg í Grjótaþorpi, í Vonarstræti 12 sem var heimili Theodóru Thoroddsen (nú í Kirkjustræti), í Ingólfstræti 18 sem var síðasta heimili Torfhildar Hólm, á lóð Melkots sem var fyrirmynd Brekkukots Halldórs Laxness, í Pósthússtræti 5 þar sem Málfríður Einarsdóttir átti heimili, að Grundarstíg 10  þar sem Hannes Hafstein bjó, á Hressingarskálanum til heiðurs Steini Steinarr og á Laugavegi þar sem Margrétar Jónsdóttur verður minnst fyrir ljóð sitt um þvottakonurnar sem fetuðu þann veg. Allar þessar merkingar verða studdar af rafrænu ítarefni á snjallsímavef Bókmenntaborgarinnar í samvinnu við Símann.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál