Fréttir

Vögguvísuganga með Hjálmari Sveinssyni

Vögguvísa eftir Elías MarNú er síðasti dagur októbermánaðar og þar með lýkur lestrarhátíð í Reykjavík (eða Vögguvísuvikum, Elíasmartóber). Í tilefni af því leiðir Hjálmar Sveinsson göngu um slóðir skáldsögunnar Vögguvísu eftir Elías Mar miðvikudaginn 31. október kl. 17. Lagt verður af stað frá Aðalstræti 6 – 8 þar sem Langibar stóð á sögutíma verksins en þar hefur Bókmenntaborgin komið fyrir skildi til heiðurs Elíasi í samvinnu við Símann. Hjálmar endurtekur þannig leikinn frá því laugardaginn 13. október, en þá var gangan fetuð í kjölfar þess að skjöldur Elíasar var afhjúpaður. Þeir sem ekki komust þá ættu því að grípa tækifærið.

Gengið verður um þær slóðir í miðborginni sem söguhetjurnar í Vögguvísu feta. Gangan hefst í Aðalstræti við Langabar eða Sóðabar, þaðan verður gengið að Naustinu þar sem einu sinni var „billjardbúla“, leiðin liggur síðan að Hótel Skjaldbreið við Kirkjustræti og endar á Austurvelli við NASA eða Sjálfstæðishúsið. Söguþráðurinn í Vögguvísu verður rifjaður upp, sagt verður frá Elíasi Mar og sögunum sem hann skrifaði og rætt um unglingamenningu og þróun borgarinnar. Gangan tekur um 50 mínútur. Ekki er nauðsynlegt að þekkja til sögunnar til að taka þátt í göngunni.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál