Fréttir

Jónas til Hannesar

Hannes PéturssonVerðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent í sautjánda sinnið í gær, á degi íslenskrar tungu. Að þessu sinni voru verðlaunin veitt Hannesi Péturssyni. Í áliti dómnefndar er Hannes nefndur brúarsmiður í íslenskri ljóðagerð og segir þar að ljóð hans hafi „löngum verið sem brýr milli hefðar og nútíma, standi föstum fótum í íslensku umhverfi, náttúru og sögu en fáist þó engu að síður iðulega við vanda okkar hér og nú. Að auki byggja þau mjög á íslenskri kveðskaparhefð, jafnt að formi sem efni, þó fæst þeirra séu ort undir föstum bragarháttum.“

Hannes er vitaskuld vel að þessum heiðri kominn og við óskum honum hjartanlega til hamingju.

Sjá síður Hannesar hér á vefnum.

Og þá er ónýtt annað en að hafa eitthvað eftir skáldinu! Jólabókaflóðið er nú skollið á landinu öllu en ummerkin eru e.t.v. greinilegust hér í höfuðborginni, þar sem ráðhúsið og fleiri staðir eru undirlagðir útgáfu, dreifingu og umfjöllun hugverka á pappír, ekki síst ljóða og annarra fagurbókmennta. Annarstaðar á landinu kyngir niður snjó, sem vekur í huga minningar um annarskonar flóð. Allt rennur þetta einhvernveginn saman í ljóði Hannesar úr bókinni Eldhylur, „Stígur í snjó“, en ákall þess á auðvitað víðar við en undir björgum:

Stígur í snjó

Enn að nýju
er allt stórfennið varasamt.

Við fjallseggjar bíða
bláhvítar hengjur átekta
– brimfaldar af snjó
bundnir torskildum fyrirmælum.

Í hlíðarfæti standa
hús góðra vina.

Öskrum ekki!
Enginn sér fyrir hvað gerist
við högg hljóðbylgjunnar.

Fetum af gát
þessa fjallshlíð sem er okkur kær.

Öskrum ekki!


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál