Fréttir

Íslensku bókmenntaverðlaunin boða yður mikinn fögnuð

Síðasta helgi, sú undangengna sem lauk með deginum í gær, sunnudegi, var fyrsta aðventuhelgi þessa árs. Hún var því bæði fyrst og síðust, alfa og ómega, lífið og vegurinn inn í vikuna sem við stígum nú þrep fyrir þrep eins og gervitröppurnar í líkamsræktarstöðinni: Við hreyfumst hvergi (að því er virðist) en vitum þó að til einhvers er unnið. Mitt í slíkri hversdagshugljómun brýst fram englaskari Félags íslenskra bókaútgefanda. Hann er gylltur fyrir lúðrum og hörpum og svífur inn um hliðardyrnar líkt og hann hafi aldrei gert annað. Einhver lækkar niður í Kiss FM; þessi tilkynning varðar okkur öll. Tilnefningarnar til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012 eru eftirfarandi:

Í flokki fagurbókmennta:

Eiríkur Örn Norðdahl fyrir skáldsöguna Illska (Mál og menning)
Auður Ava Ólafsdóttir fyrir skáldsöguna Undantekningin (de arte poetica) (Bjartur)
Gyrðir Elíasson fyrir skáldsöguna Suðurglugginn (Uppheimar)
Kristín Ómarsdóttir fyrir skáldsöguna Milla (JPV útgáfa)
Sigurjón Magnússon fyrir skáldsöguna Endimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns (Ormstunga)

Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Einar Már Jónsson fyrir Örlagaborgin: brotabrot úr afrekssögu frjálshyggjunnar, fyrri hluti (Ormstunga)
Gunnar F. Guðmundsson fyrir Pater Jón Sveinsson: Nonni (Opna)
Gunnar Þór Bjarnason fyrir Upp með fánann: baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga (Mál og menning)
Jón Ólafsson fyrir Appelsínur frá Abkasíu: Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu (JPV útgáfa)
Steinunn Kristjánsdóttir fyrir Sagan af klaustrinu Skriðu (Sögufélag)

Þegar sá ljósasti englanna hefur lokið máli sínu gripur annar orðið, áður en það fellur líkt og handlóð milli róðravélanna. Sá þriðji stígur fram til að þýða ræðuna, þegar ljóst er að enginn hinna dauðlegu skilur neitt í neinu. Hér segir af tilnefningum til íslensku þýðingaverðlaunanna:

Þórdís Gísladóttir: Allt er ást eftir Kristian Lundberg
Sigurður Karlsson: Ariasman eftir Tapio Koivukari
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson: Hjaltlandsljóð (safn íslenskra þýðinga á ljóðum níu samtímaskálda frá Hjaltlandseyjum)
Sigrún Árnadóttir: Sá hlær best sagði pabbi eftir Gunilla Bergström
Kristín Guðrún Jónsdóttir: Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Augusto Monterroso

Augnabliki síðar er allt sem áður var, en við erum breytt. Það er regla á óreiðunni, miðja alheimsins er negld með átta tommum að minnsta kosti. Þegar við erum búin með þetta stigaprógramm ættum við kannske að fara heim og lesa eitthvað.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál