Fréttir

Upplestrar og ljóð í kvöld, á morgun og hinn

Aðventan er í eðli sínu upphlaup, ekki á eina vegu heldur tvo. Fyrst vex hún og vex dag frá degi þar til tónhæðin sker svöðusár í vinnuvikuna svo helgidagarnir vella fram og aðlaga þannig jafnvægi vessa í þjóðarsálinni. Um leið stendur hún fyrir uppþot: hljóðlátar, stenslaðar óeirðir sem brjótast fram milli vinnudags og náttferða. Skreppitúr sálar hvers manns að mörkum hugsýki og gjaldþrots. En byltingin er lögleg ef hún lukkast, stendur skrifað, og í flestum tilfellum endar aðventan vel, eða í það minnsta með jólum.

Þannig erum við komin að síðustu helgi aðventunnar og nú er bara að þrauka. Sumir troða vaxi í eyrun og reyra sjálfa sig við mastrið, við hin leggjum við hlustir og kíkjum á einhverja af þessum upplestrum sem boðið er upp á í kvöld, á morgun og hinn.

Í kvöld, fimmtudag, klukkan 19 lesa Gerður Kristný, Bjarni Bjarnason, Anton Helgi Jónsson og Sigurbjörg Þrastardóttir úr nýjum verkum á Café Mezzo, fyrir ofan IÐU á Lækjargötu.

Morgundagurinn er auðvitað stysti dagur ársins hér norðanmegin á jarðkringlunni og í ár fagnar heimsbyggðin væntanlegri hækkun sólar með því að velta sér upp úr heimsendaspám. Og það er um að gera að njóta þeirra meðan þær endast!

Á morgun, föstudag, stíga Kristín Ómarsdóttir og Þórdís Björnsdóttir á stokk í IÐU bókakaffi á Vesturgötu 2a (í Zimsen húsinu, fyrir ofan Fiskifélagið) ásamt ungskáldunum Arngunni Árnadóttur, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur og Valgerði Þóroddsdóttur. Þessi dagskrá hefst kl. 20 og umsjón hafa Meðgönguljóð og Stella útgáfa. Kári Tulinius kynnir.

Á laugardag, þann 22. desember, standa No Borders Iceland fyrir tónleikum og ljóðadagskrá, eða ljóðleikum og tónadagskrá, eða bara orðum í takt, á Hemma og Valda að Laugavegi 21. Yfirskrift viðburðarins er Speaking of Liberation og hann stendur frá 20 til miðnættis. Afró-karabíska hiphop sveitin The Welfare Poets kemur þar fram, ásamt eftirfarandi:

M.I.C. og Rayzer Sharp
Didda
Einar Már Guðmundsson
Guðrún Heiður Ísaksdóttir
Ísak Harðarson
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Jón Bjarki Magnússon
Kristín Svava Tómasdóttir
Bragi Páll Sigurðsson
Birgitta Jónsdóttir
Dean Ferrel - Captain Tobias Hume
Hensonshawn
Art of Listening

Að lokinni auglýstri dagskrá verður orðið gefið laust (eða frjálst!) og þá stíga eflaust fram hnyttnir hagyrðingar, andagiftugir ræðumenn og útsprungnar maddömmur myndlíkinga, framtíðarbörn íslenzkrar ljóðlistar fyrirgefðu.

Þetta er spennandi. Æjum til síðdegis og látum svo helgina koma.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál