Fréttir

LoveStar tilnefnd til PKD verðlaunanna

LoveStar eftir Andra Snæ MagnasonTilkynnt var um tilnefningar til hinna bandarísku Philip K. Dick verðlauna í gær. Að verðlaununum standa Vísindaskáldsagnasamtök Philadelphiu og Philip K. Dick sjóðurinn, sem stofnaður var í kjölfar dauða þess fræga og áhrifamikla vísindaskáldsagnahöfundar árið 1982. Verðlaunin eru veitt ár hvert bestu vísindaskáldsögunni sem út kemur á ensku árið á undan, í frumútgáfu í kilju. Dick var því marki brenndur, líkt og aðrir kollegar hans og samtíðarmenn, að bækur hans fengust ekki útgefnar innbundnar; goðsögn höfundarins er þannig haldið á lofti með kiljuforsendunni, þó kiljan sé í sjálfu sér ekki pestarmerkið sem sumum þótti hún vera í den.

Ein af bókunum sem tilnefndar eru er LoveStar Andra Snæs Magnasonar, en hún kom út hjá Seven Stories Press á síðasta ári í enskri þýðingu Victoriu Cribb. Rúm tíu ár eru síðan bókin kom út upprunalega hér á landi, og má vera að heimurinn hafi fikrað sig nær veruleika sögunnar í millitíðinni. Í öllu falli hefur bókinni verið vel tekið úti og varla mögulegt annað en að tilnefningin bæti þar í.

Alls eru sjö vísindaskáldsögur tilnefndar en tilkynnt verður um sigurvegara í lok mars næstkomandi. Sjá nánar á heimasíðu PKD verðlaunanna.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál