Fréttir

Birgitta Sif hlýtur Dimmalimm verðlaunin

Birgitta Sif JónsdóttirBirgitta Sif Jónsdóttir hlýtur Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin í ár fyrir barnabókina Ólíver, en tilkynnt var um verðlaunin sunnudaginn 27. Janúar. Forlagið – Mál og menning gefur bókina út.

Dimmalimm verðlaunin í ár eru styrkt af Myndstefi og Félagi bókagerðarmanna. Dómnefndina skipuðu Aðalsteinn Ingólfsson, Halldór Baldursson og Kalman le Sage de Fontenay.

Aðalsteinn Ingólfsson talaði fyrir hönd dómnefndar og sagði m.a. í rökstuðningi sínum:

„Við erum hingað komin til að gleðjast með höfundi barnabókar sem við teljum vera þá bestu á sýningunni og verðskulda þar með Dimmalimm-verðlaunin fyrir 2012. Þetta er bókin Ólíver eftir Birgittu Sif Jónsdóttur, gefin út af Forlaginu. Útgáfusaga þessarar bókar er óvenjuleg, a.m.k. í íslensku samhengi, því hún er þegar komin út hjá bresku forlagi, Walker Books Ltd. Höfundur texta og mynda, Birgitta Sif, hefur verið við nám og störf í Bretlandi, og bók hennar hefur til að bera ýmsa kosti breskra barnabóka:  sérviskulega persónusköpun, vandaðar vettvangsteikningar, þar sem meira er lagt upp úr ljóðrænum stemmningum en ágengu litrófi, og kímni sem er í senn góðlátleg og fjarstæðukennd. Einföldum boðskap bókarinnar – „maður er manns gaman“ – eða kannski  „sækjast sér um líkir“, er ekki þröngvað upp á lesendur heldur rennur hann smám saman upp fyrir þeim.“

Brot úr bókinni Óliver

Á sýningunni Þetta vilja börnin sjá! í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi má sjá þær bækur sem kepptu til verðlaunanna að þessu sinni. Starfsfólk Gerðubergs og Borgarbókasafnsins mun bjóða 8 ára skólabörnum upp á skemmtilega dagskrá á sýningartímabilinu þar sem þau fá að skoða sýningarnar Þetta vilja börnin sjá og  sýninguna Origami – Brot í brot, sem sýnir pappírslistaverk hjónanna Dave og Assiu Brill, auk þess að taka þátt í spennandi leikjum á bókasafninu. Einnig er boðin leiðsögn um sýningarnar fyrir aðra aldurshópa í samráði við starfsfólk Gerðubergs. Sýningin er farandsýning og hafa sýningar síðustu ára verið settar upp víða um landið.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál