Fréttir

Bókakaffi í Gerðubergi: Rúbajat

Það er einhver hrollur í Tómasi, hann tekur hattinn ekki ofan.Í bókakaffi Gerðubergs í kvöld, miðvikudag 30. janúar, verður kvæðið Rúbajat eða Ferhendur tjaldarans eftir Ómar Kajam til umfjöllunar. Sex sinnum hefur þetta makalausa kvæði austan úr Persíu verið þýtt á íslensku, varla annað oftar, þar á meðal af Einari Benediktssyni, Magnúsi Ásgeirssyni og Helga Hálfdanarsyni. Hvers vegna í ósköpunum? Kvæðið verður kynnt í þýðingu og á frummálinu og fjallað um Ómar og Persíu á hans dögum. Umsjónarmaður bókakaffis á vormisseri er Jón Björnsson sálfræðingur og rithöfundur. Jón fær til sín góða gesti og í janúar verða þau Hjörtur Pálsson, Sigrún Óskarsdóttir og Ali Amoushahi honum til aðstoðar.

Bókakaffi er hluti af dagskrárröð í Gerðubergi á miðvikudagskvöldum. Fjórða miðvikudag hvers mánaðar býður Borgarbókasafn Reykjavíkur upp á bókakaffi í kaffihúsinu. Þar er spjallað um bækur af ýmsu tagi á léttum nótum á meðan gestir kaffihússins njóta veitinga í notalegu andrúmslofti.  Markmiðið með bókakaffinu er að kynna áhugaverðar bókmenntir og ræða um þær á óformlegan hátt svo og að sýna fjölbreytileika íslenskra bókmennta og sagnamennsku.

Bókakaffið hefst klukkan 20 á kaffihúsinu í Gerðubergi. Allir eru velkomnir.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál