Fréttir

Illska og Nonni lang bestar

Nonni / IllskaÍslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í dag, miðvikudaginn 6. febrúar. Eiríkur Örn Norðdahl hlaut verðlaunin í ár í flokki fagurbókmennta, fyrir skáldsöguna Illsku (Mál og menning, 2012). Í flokki fræðbóka og rita almenns efnis þótti ævisagan Pater Jón Sveinsson: Nonni (Opna, 2012), eftir sagnfræðinginn Gunnar F. Guðmundsson bera af.

Í ræðu sinni sagðist Gunnar „eiga mörgum laun að gjalda, bæði lífs og liðnum,“ þar sem ótrúlegar tilviljanir og / eða guðleg forsjá hafi orðið til þess að söguhetjan (ef svo má að orði komast) Jón Sveinsson komst til manns og visku, og fann sín eigin yrkisefni.

Í þakkarræðu sinni kvaðst Eiríkur vera þakklátur á að minnsta kosti þrjá vegu. Í fyrsta lagi fyrir stuðning fjölskyldu, vina og samstarfsfólks meðan á skrifunum stóð; í annan stað fyrir viðtökur lesenda – ekki síst viðtökur „yndislegustu verðlaunanefndar sem sólin hefur skinið á frá upphafi veraldar“; og í þriðja lagi kvaðst hann þakklátur fyrir peninga, sem kæmu nú til með að losa harðsvíruðustu innheimtumenn ríkissjóðs af baki hans.

Þá sagðist hann vona að verðlaunin gætu vakið athygli á umfjöllunarefni Illsku, þ.e.a.s. „hvað það þýði að vera sviptur uppruna sínum ... að vera beittur ofbeldi og að beita ofbeldi.“ Loks sagðist Eiríkur vita að innst inni byggi með sér „hégómagjarn athyglissjúklingur,“ sem hann sagðist vona að breyttist við þetta ekki í „óþolandi gerpi.“

Ætla má að einhverjir lesendur hafi séð ákvörðun dómnefndar fyrir, en varla þó Eiríkur sjálfur, sem ritaði í „Útgáfusamningi“ að hann skyldi jú eiga kost á þessum verðlaunum en þó ekki fyrr en eftir fertugt.

Við óskum þeim Gunnari og Eiríki hjartanlega til hamingju með verðlaunin.

Sjáið aðrar tilnefningar og fyrri verðlaunahafa á verðlaunasíðu vefsins.

Lesið umfjöllun Björn Unnars um Illsku, sem birtist hér á vefnum fyrir jól.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál