Fréttir

Fjöruverðlaunahafar: Auður, Þórdís og Steinunn

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í IÐNÓ sunnudaginn 24. febrúar síðastliðinn. Er þetta í sjöunda sinn sem verðlaunin hafa verið veitt en Fjöruverðlaunin eru orðin mikilvægur hluti af  bókmennta- og menningarlífi landsmanna en fyrst og fremst lykilþáttur í að vekja athygli á framlagi kvenna til íslenskra bókmennta.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, afhenti verðlaunin sem veitt voru í þremur flokkum, þ.e. fagurbókmenntum, fræðibókum og barna- og unglingabókum. Í flokki fagurbókmennta hlaut skáldsagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur (útgefandi: Mál og menning) Fjöruverðlaunin. Af fræðibækum var bók Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur (útgefandi: Sögufélagið) hlutskörpust og verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka hlaut Þórdís Gísladóttir fyrir skáldsöguna Randalín og Mundi (útgefandi: Bjartur).

Fjölmargir gestir lögðu leið sína á hátíðina en áður en að verðlaunaafhendingunni kom var boðið upp á skemmtileg tónlistaratriði og frú Vigdís Finnbogadóttir, ávarpaði samkomuna og sagði frá félagsskap fyrrverandi þjóðarleiðtoga. Að verðlaunaathöfninni lokinni fóru fram líflegar pallborðsumræður þar sem rætt var um hlutverk og sérstöðu kvenna í listum á Íslandi sem og nauðsyn sérstakra verðlauna fyrir framlag kvenna á mismunandi sviðum lista.

Um verðlaunabækurnar hafði dómnefnd sitthvað að segja:

Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur„Í [Ósjálfrátt] er sagt frá átakanlegum atburðum og erfiðum aðstæðum með hlýju og skilningi án þess að hún verði nokkurn tíma væmin. Frásögnin er hreinskilin og vægðarlaus, en virðing, væntumþykja og djúpur mannskilningur einkennir lýsingar af sögupersónum. Samfélag og samband kvenna er í fyrirrúmi, mæðra og dætra, systra og frænkna, amma og ömmustelpna.

Sagan flakkar í tíma og rúmi og frásagnarháttur kallast á við óreiðuna í lífi aðalpersónunnar sem glímir við erfiðar fjölskylduaðstæður, áfengissýki ástvina og þær væntingar sem gerðar eru til barnabarns þjóðskálds. Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur er skáldleg ævisaga eða kannski ævileg skáldsaga, óvenju sterk og hlýleg frásögn af skáldum og litríkum persónum sem hreiðra um sig í höfði lesandans – og taka sér kirfilega bólfestu í huga hans.“

Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjándsdóttur„Í [Sögu af klaustrinu á Skriðu] er sagt uppgreftri klaustursins á Skriðu í Fljótsdal. Steinunn tekur lesandann með sér í ferðalag í gegnum rannsóknirnar og spinnur úr því spennandi sögu með óvæntum uppgötvunum  þar sem einstakir þættir rannsóknarinnar raðast smám saman í heildstæða mynd.  Steinunn varpar ljósi á líf þeirra sem lifðu og dóu í klaustrinu, hún veltir fyrir sér hlutskipti þeirra og þjáningum af næmni og á persónulegan hátt sem þó verður aldrei of rúmfrekur í frásögninni. Bókin er skrifuð fyrir almenning og Steinunn leggur sig fram um að útskýra hugtök og aðferðir og þær takmarkanir sem túlkun fornleifarannsókna eru settar. Bókin virkjar ímyndunarafl lesandans og er prýtt fjölda ljósmynda, korta og skýringarmynda. Uppgröfturinn á Skriðu dýpkaði skilning á hlutverki hins íslenska miðaldaklausturs og fræðilegt framlag rannsóknarinnar því mikið. Bókin hefur þó einnig mikið gildi sem aðgengilegt og læsilegt rit um starf fornleifafræðinga og spennandi rannsókn.“

Randalín og Mundi eftir Þórdísi Gísladóttur„Reykvískt sumar, uppátækjasamir krakkar, litskrúðugt mann- og dýralíf og ævintýri hversdagslífsins eru m.a. viðfangsefni Þórdísar Gísladóttur í bókinni um fjörugu vinina Randalín og Munda. Þetta er bráðskemmtileg og lipurlega skrifuð saga með spaugilegum myndum, skemmtilegum persónum og aðstæðum sem vekja kátínu og gleði. Frumraun Þórdísar í barnabókaskrifum er einstaklega vel heppnuð, saga sem skemmtir bæði fullorðnum og börnum.“


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál