Fréttir

Þorvaldur Þorsteinsson er látinn

Þorvaldur ÞorsteinssonÞorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og listamaður, er látinn. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Antwerpen í Belgíu laugardaginn 23. febrúar síðastliðinn. Hann var 52 ára gamall.

Sem myndlistamaður hélt Þorvaldur fjölda einkasýninga og tók þátt í samvinnuverkefnum víða um heim, og var auk þess forseti Bandalags íslenskra listamanna á árunum 2004-6. Rithöfundurinn Þorvaldur samdi æði mörg leikrit fyrir útvarp, svið og sjónvarp, og sendi frá sér skáldsöguna Við fótskör meistarans árið 2001, en var þó e.t.v. þekktastur (í það minnsta meðal yngri lesenda) sem höfundur Skilaboðaskjóðunnar og Blíðfinnsbókanna, sem hafa verið gefnar út í þýðingu í Þýskalandi, Ítalíu og Spáni auk Norðurlandanna.

Leikritið And Björk of course... var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2001. Þeir sem sáu muna hvernig persónur Þorvaldar afhjúpa sig, skapa og afskapa með einræðum sem hnika samt aldrei neinu til í hinum ytri veruleika leikritsins – veruleika sem aftur er móðukenndur og banvænn. Um þetta skrifaði Þorvaldur að hann nálgaðist textann „sem hráefni í orðmargan gjörning fremur en tilraun til að skapa dramatíska framvindu með upphafi, miðju og endi.“ Án þess að smætta höfundarverk Þorvaldar niður í einn einasta munnbita má þó segja að þessa sviðsettu lýrík megi vel finna í fleiri verkum hans, þar sem lifandi, rökrænt tungumál vísar leið inn að draumi.

Smásagnasafnið Engill meðal áhorfenda (Bjartur, 1992) gefur fjölmörg dæmi þessa en með þeim skemmtilegri og öfgakenndari er romsan „Piper Club flugvél hrapar á hænsnakofa við Úlfarsfell“. Við leyfum okkur að birta hana hér í heild sinni:

Þó að ég sé leikkona er það ekki fyrr en ég finn að vélin fellur að ég sé hvað flugmaðurinn er líkur Charlton Heston þrátt fyrir ungan aldur og ég segi honum frá samkeppni sem ég tek þátt í þar sem lesendur blaðsins eiga að finna stjörnu sem er falin í blaðinu og ég finn hana og það eru veitt þrenn bókaverðlaun og ég fæ senda bók sem heitir Lífið kvatt og fjallar um unga stúlku sem ákveður að ganga í klaustur í Frakklandi og ég vil fara í Lindargötuskólann en næ ekki 6 á gagnfræðaprófi og hann hlustar ekki svo ég fylgi einhverjum línum eins og af rælni í lófa hægri handar með vísifingri þeirrar vinstri og sé langt ferðalag og les aftur og aftur svarið sem ég fæ þegar ég loksins hef mig í að skrifa í spurt og svarað, um þetta skaltu tala við lækninn þinn, við þorum ekki að ráðleggja neitt, og er nákvæmlega engu nær landi, himni, hafi í einhverri skáskorinni blöndu hring eftir hring og verður hugsað til Valentínu konu Gagaríns sem hefur ekki hugmynd um hvað Júrí aðhefst í vinnunni sinni fyrr en nágrannakonan kemur hlaupandi með Prövdu og óskar henni til hamingju með að eiga manninn sem er fyrsti geimfarinn og fer í hring um jörðina, hafið, himinninn er samlitur sundinu og veit að hann getur bjargað sér með því að stökkva úr vélinni en hann kýs heldur að reyna að bjarga farkosti sínum og reynist starfi sínu trúr til hinstu stundar þessi þrekvaxni háttvísi trésmiðssonur og geimfari en er viss um að það er fyrir góðu að dreyma stöðuvatn og mig dreymir fallegt stöðuvatn, segi ég, en hann hlustar ekki þegar ég kyssi á hnakkann og heyri skurnina opnast.

Einhverstaðar yfir landi, himni og hafi opnast skurnin með kossi; það er upphaf og endir í senn og ólíkt fallegra að hugsa sér.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál