Fréttir

Framtíðarbókin í Gerðubergi

Laugardaginn 9. mars kl. 10.30 – 13.30 verður árleg Barna- og unglingabókaráðstefna haldin í Gerðubergi. Að þessu sinni er fjallað um leiðir til lestrarhvatningar og hvernig bækur og lestur þróast í samtíma okkar og framtíð.

Ráðstefna höfðar jafnt til þeirra sem starfa í leik- og grunnskólum eða á bókasöfnum sem og foreldra og annarra sem áhuga hafa á lestri barna og unglinga. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Á ráðstefnunni fjallar Katrín Jakobsdóttir, bókmenntafræðingur og mennta- og menningarmálaráðherra, um áhuga á bókum og innihaldi þeirra í erindi sem hún kallar Sögur í þátíð, nútíð og framtíð. Bára Elíasdóttir og Rannveig Möller, grunnskólakennarar, segja frá tilraunverkefni í notkun lesbretta í Vogaskóla; og Kjartan Yngvi Björnsson, annar höfundur verðlaunabókarinnar Hrafnsauga, spyr hvort fantasían sé bókmenntaform framtíðarinnar. Að síðustu fjallar Kristín Eva Þórhallsdóttir, umsjónarmaður Leynifélagsins á Rás 1, um eðli og inntak lesturs í ljósi reynslu sinnar sem móðir lesblinds barns.

Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir hefur verið fastur liður í dagskrá Gerðubergs frá árinu 1998. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við IBBY á Íslandi, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Rithöfundasamband Íslands - Síung, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, Félag fagfólks á skólasöfnum og Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál