Fréttir

Útgáfuhóf Unglinga

meðgönguljóðStella útgáfa og meðgönguljóð bjóða til útgáfuhófs fimmtudaginn 14. mars kl. 17.30 í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Allir eru velkomnir. Tilefnið er útgáfa fyrstu ljóðabókar Arngunnar Árnadóttur, Unglingar.

Er þetta þriðja bókin í ritröðinni meðgönguljóð, sem gefin er út af stellu útgáfu, en á síðasta ári komu bækurnar Herra Hjúkket eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur og Þungir forsetar eftir Valgerði Þóroddsdóttur og Kára Tulinius.

Unglingar er safn ljóða og örsagna, litað af óræðum stemningum unglingsáranna. Eins og aðrar bækur meðgönguljóða verður fyrsta prentun Unglinga í takmörkuðu upplagi sem telur 200 eintök og er hver bók einstök, sérmerkt og handsaumuð. Nafn bókaflokksins kemur úr kaffiheiminum, en „take away cup“ hefur stundum verið þýtt sem „meðgöngubolli.“ Hver bók kostar á við einn kaffibolla og er ætluð sem jafn sjálfsagt veganesti út í daginn.

Arngunnur Árnadóttir (1987) ólst upp í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í klarinettuleik við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Haustið 2012 hóf Arngunnur störf sem fyrsti klarinettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Mynd af Arngunni: Gulli Már.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál