Fréttir

Sögusteinn afhentur á degi barnabókarinnar

Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti Þórarni Eldjárn Sögusteininn, bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, á alþjóðlegum barnabókadegi í gær, 2. apríl.

Verðlaunin eru 500.000 krónur, auk verðlaunagrips til eignar, en þau eru veitt rithöfundi, myndlistamanni eða þýðanda sem hefur með höfundarverki sínu auðgað íslenskar barnabókmenntir. Þórarinn hefur ort ljóð og samið sögur fyrir börn í rúm tuttugu ár; hann hefur endurritað Völuspá og Hávamál svo yngsta kynslóðin skilji og þýtt sígildar barnabókmenntir á borð við Greppikló, Lísu í Undralandi og Moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni. Valnefnd verðlaunanna lagði þó mesta áherslu á kvæði Þórarins, sem ómetanlegan hluta af menningararfi okkar. Í greinagerð hennar segir meðal annars:

Þórarinn Eldjárn er mikill meistari bullljóðaformsins. Hann leikur sér gjarna að tungumálinu, einkum klisjum þess og föstum orðatiltækjum en það örvar málþroska og ímyndunarafl ungra lesenda.
Enginn verðskuldar betur nafnbótina Listaskáld barnanna en Þórarinn Eldjárn og það er okkur mikill heiður og gleði að veita honum Sögusteininn fyrir árið 2013.

Í ræðu sinni lagði Þórarinn meðal annars út af sögunni um Lísu í Undralandi, þar sem persónur og sögumaður hafa fátt gott að segja um bækur sem innihalda hvorki myndir né samtöl. Hann sagðist vera meðvitaður um þetta í skrifum sínum fyrir börn, og hafi enda verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa starfað með mörgum hæfileikaríkum myndlýsendum og -höfundum.

Vigdís Finnbogadóttir, Þórarinn Eldjárn og Arndís Þórarinsdóttir
Vigdís Finnbogadóttir, Þórarinn Eldjárn og Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY á Íslandi.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál