Fréttir

„Stóra bróður“ Friðriks Erlingssonar útvarpað

Í morgun, fimmtudaginn 4. apríl, kl. 9.10 var ný, íslensk smásaga eftir Friðrik Erlingsson frumflutt samtímis í öllum grunnskólum landsins. Á sama tíma var sagan flutt á Rás 1, upptökuna má heyra á vefsíðu RÚV.

Friðrik Erlingsson skrifaði söguna „Stóra bróður“ fyrir börn á aldrinum 6-16 ára að beiðni IBBY á Íslandi. Tilefnið er dagur barnabókarinnar, en þetta er þriðja árið í röð sem samtökin halda upp á hann með þessum hætti.

Sagan „Stóri bróðir“ segir frá Hússein sem er 11 ára og býr í stríðshrjáðu landi. Viðfangsefnið er nýstárlegt í íslenskri barnasögu, en Friðrik tekst á við það af þeirri næmni og einlægni sem einkennt hefur skáldskap hans allt frá útgáfu Benjamíns dúfu.

Hugsjón IBBY-samtakanna er að auka skilning meðal bæði einstaklinga og þjóða gegnum barnabókmenntir og saga Friðriks mun sannarlega veita nemendum innsýn í lífskjör jafningja þeirra sem búa annars staðar á jarðarkringlunni. Sagan vekur til umhugsunar um hvernig erfið lífsreynsla getur þrátt fyrir allt leitt til góðs og á fimmtudaginn mun heil kynslóð íslenskra barna deila þeirri lestrarupplifun og taka hana með sér áfram út í lífið.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál