Fréttir

Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur afhent

Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur voru afhent við hátíðlega athöfn mánudaginn 22. apríl síðastliðinn. Þetta er í fertugasta og fyrsta skipti sem það er gert, en verðlaunin eru með elstu bókmenntaverðlaunum landsins, þó þau hafi reyndar breytt nokkrum sinnum um nafn á þessum fjörutíu árum.

Að þessu sinni voru það þau Anna Heiða Pálsdóttir og Guðni Kolbeinsson sem hlutu viðurkenningu ráðsins; Anna Heiða fyrir bestu frumsömdu barnabókina, Mitt eigið harmagedón (Salka, 2012), og Guðni fyrir þýðingu sína á Stiklað á stóru um býsna margt eftir Bill Bryson (JPV útgáfa, 2012).

Mitt eigið harmagedón hlaut áður tilnefningu til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Þetta er önnur barnabók Önnu Heiðu en hún hefur auk þess þýtt þríleik Philip Pullman, Gyllti áttavitinn / Lúmski hnífurinn / Skuggasjónaukinn.

Stiklað á stóru um býsna margt er stytt útgáfa á Stiklað á stóru um næstum allt, sem kom út árið 2007 og er flestum kunn. Guðni hefur áður hlotið þessi sömu verðlaun fyrir þýðingar sínar Ararat (2005) og Ógnaröfl (2000), og fyrir frumsömdu barnabókina Mömmustrákur (1983).

Hér á mynd eru verðlaunahafarnir ásamt Oddnýju Sturludóttur, formanni skóla- og frístundaráðs, Jóni Gnarr, borgarstjóra, og Margréti Kristínu Blöndal, formanni dómnefndar.

Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur 2013

 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál