Fréttir

Tíu núll fimm á Kex klukkan sautján

1005Fyrsti árgangur tímaritraðarinnar 1005 kemur út 10. maí og hefur að geyma þrjú verk eftir jafnmarga höfunda. Í þriðja hefti er Hælið, glæpasaga um geðveiki eftir Hermann Stefánsson, í öðru hefti bréfaljóðabálkurinn Bréf frá borg dulbúinna storma eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og í fyrsta hefti fræðigátubókin Bautasteinn Borgesar eftir Jón Hall Stefánsson. Í tilefni af útgáfunni efnir Kind útgáfa til vorfagnaðar á Kex Hostel föstudaginn 10. maí kl. 17.00. Höfundarnir þrír lesa úr verkum sínum, gestir bera saman bækur sínar, auk þess sem tónelskur leynigestur leikur af fingrum fram.

Hér á eftir fylgja upplýsingar um heftin og höfunda þeirra:

Skáldsagan Hælið hefst á því að illa útleikið lík finnst í kjallara Kleppsspítalans í Reykjavík, Aðalsteinn Lyngdal rannsóknarfulltrúi og Reynir Jónsson aðstoðarrannsóknarfulltrúi annast yfirheyrslur á vettvangi sem reynast afar snúnar. Um er að ræða margbrotna morðgátu þar sem óljós mörk heilbrigði og sjúkleika eru meðal annars til rannsóknar. Hermann Stefánsson (f. 1968) er skáldsagnahöfundur, ljóðskáld og leikskáld. Eftir hann liggja skáldsögurnar Níu þjófalyklar (2004), Stefnuljós (2005) og Algleymi (2008), skáldfræðiritið Sjónhverfingar (2003), útvarpsleikritið Skyldan kallar (2009) og söngleikurinn Svarthvít jól. Hermann hefur líka sent frá ljóðabækurnar Borg í þoku (2006), Högg á vatni (2009) og Ugluturn (2012). Þá hefur hann þýtt fjölda skáldverka úr spænsku og ensku og fengist við lagasmíðar.

Bréf frá borg dulbúinna storma er úrval pósta sem íslensk kona í höfuðborg Argentínu sendir manni nokkrum – eða nokkrum mönnum – í hinni fjarlægu Norður-Evrópu. „ég vona að þú sért í þínu elementi / efst / í haustinu þótt ég skilji vel / hvernig skaflarnir geta farið með / grænu buxurnar / menn verða þöglir af minna tilefni,“ segir í einu bréfanna. Hér er á ferð áleitið verk þar sem endurnýjun ljóðmálsins er í ávarpsformi. Sigurbjörg Þrastardóttir (f. 1973) sendi frá sér fyrstu bók sína árið 1999, ljóðabókina Blálogaland. Síðan hefur hún jöfnum höndum skrifað ljóð, prósa og leikrit. Skáldsögur hennar eru tvær, Stekk (2012) og Sólar saga (2002) sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Ljóðabókin Hnattflug var valin ljóðabók ársins af starfsfólki bókaverslana árið 2000, ljóðsagan Blysfarir hlaut Fjöruverðlaunin 2008 og Brúður var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2010.

Á rigningardegi í októbermánuði 2011 vitjar Jón Hallur Stefánsson um leiði argentínska skáldsins Borgesar í Konungskirkjugarðinum í Genf í Sviss. Sér til furðu kemst hann að því að legsteinninn sem þar stendur hefur að geyma margræðar vísanir til höfundarverks hins látna sem og til íslenskra fornbókmennta. Bautasteinn Borgesar er tilraun höfundar til að ráða þá snúnu gátu. Jón Hallur Stefánsson (f. 1959) er glæpasagnahöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Ljóðabækur hans eru Auk þess legg ég til að höfuð mitt verði lagt í bleyti (1986), Steinn yfir steini (1989) og Tangó (1990) og glæpasögur hans Krosstré (2005) og Vargurinn (2008). Hann var tilnefndur til Menningarverðlauna DV árið 1991 fyrir þýðingu sína á Skáld í New York eftir Frederico García Lorca og hlaut barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur árið 2009 fyrir þýðingu sína á Ljónadrengnum eftir Zizou Corder. Auk ritstarfa hefur Jón Hallur gert fjölda útvarpsþátta og fengist við laga- og textasmíðar.

Tímaritröðin 1005 sameinar styrkleika tveggja útgáfuforma, tilraunagleði og fagurfræðilegan margbreytileika tímaritsins annars vegar og áherslu ritraðarinnar á einstök bókverk í tímalegri samfellu hins vegar. Hægt er að gerast áskrifandi að tímaritröðinni með því að senda póst á 1005.timaritrod@gmail.com.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál