Fréttir

Opnun myndasögusýningar í Borgarbókasafni

Laugardaginn 18. maí opnaði sýning á myndasögum sem bárust í árlega myndasögusamkeppni Borgarbókasafns og Myndlistaskólans í Reykjavík, í samstarfi við Nexus. Yfirskrift keppninnar í ár var MARVEL, til heiðurs silfuraldar-ofurhetjuteymunum X-Men og The Avengers, sem fagna fimmtugsafmæli í ár. Ríflega fimmtíu myndir og sögur bárust í keppnina og hver með eigin sniði, enda eru innri landamæri myndasögunnar einungis takmörkuð af hugmyndaflugi þess sem heldur á blýantinum, og hér var hvergi skortur á því.

Í ár var keppt í þremur aldursflokkum: 10-12 ára, 13-16, og 17 ára og eldri.

Sigurvegari í flokki hinna yngstu var Una Björk Guðmundsdóttir, með sögu um dularfulla gesti sem reynast vera ofurhetjur í leit að árshátíð. Í hópi 13-16 ára hlaut Filip Már Helgason de Jesus sigurverðlaun fyrir litríka kynningu á nýliða í ofurhetjuteymi. Og í hópi elstu keppenda sigruðu þau Elizabeth Katrín Mason og Arnar Heiðmar Önnuson með sögunni Dear Captain America, sem fjallar um dekkri hliðar þess stríðsáróðurs sem segja má að kapteinninn standi fyrir. Að auki hlutu sérstaka viðurkenningu þau Birkir Hallbjörnsson og Sylvía France Skúladóttir.

Sigurverðlaun voru námskeið hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík og skissubók frá Nexus, og viðurkenningarhafar fengu frá Nexus skissubækur og teiknisett.

Myndasögusýningin stendur til 16. júní á fyrstu hæð Borgarbókasafnsins við Tryggvagötu.

Á mynd eru þau Arnar, Elizabeth, Filip, Sylvía og Una, ásamt meðlimum dómnefndar.

Sigurvegarar myndasögusamkeppninnar 2013


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál