Fréttir

Málþing til heiðurs Guðbergi Bergssyni á laugardag

Á laugardaginn kemur, þann fyrsta júní, verður haldið málþing til heiðurs rithöfundinum Guðbergi Bergssyni í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Málþingið er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2013.
 
Þar verður sjónum beint að verkum Guðbergs í alþjóðlegu samhengi og sækir glæsilegur hópur erlendra fræðimanna, rithöfunda og þýðenda Ísland heim til heiðurs skáldinu en einnig munu íslenskir fræðimenn og rithöfundar taka þátt í dagskránni. Dagskráin fer að mestu fram á ensku. Við sama tækifæri verður Guðbergur sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.
 
Þingið stendur frá kl. 9:45 til 16:30 og er öllum opið á meðan húsrúm leyfir.
 
Meðal fyriresara eru rithöfundarnir Colm Tóibín og Lucía Costa Gomes, bókmenntafræðingarnir Ástráður Eysteinsson, Birna Bjarnadóttir og Ármann Jakobsson og þýðendurnir Enrique Bérnardez,  Massimo Rizzante, Eric Boury og Hans Brükner.
 
Meðal þess sem ber á góma eru þýðingar á verkum Guðbergs, fagurfræði hans og „leitin að landinu fagra“, samtal skáldskapar hans við verk yngri skálda og sá leiðangur sem list skáldsins hefur bæði tekist á hendur og fer með lesandann í.  Að auki flytur írski rithöfundurinn Colm Tóibín erindi um írskar bókmenntir. Erindið kallar hann „Home: Wherever That May Be – Exile and Return in Irish Fiction.“ Þess má geta að Dublin er ein af systurborgum Reykjavíkur í samtökum Skapandi borga UNESCO.
 
Að þinginu standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum,  Íslenskudeild Manitobaháskóla, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið , Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og Grindavíkurbær.
 
Sjá dagskrána á vef Bókmenntaborgarinnar hér: http://bokmenntaborgin.is/ad-heiman-og-heim/


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál