Fréttir

Myrkraverk í miðbænum

Borgarbókasafn Reykjavíkur býður upp á bókmenntagöngur á ensku í sumar, ætlaðar erlendum gestum og ferðamönnum og öðrum sem hafa áhuga á því að kynna sér myrkraverk í miðbænum. Þetta er ellefta árið sem Borgarbókasafnið býður upp á þessar göngur og hafa þær notið mikilla vinsælda.

Fyrsta gangan verður farin fimmtudaginn 6. júní, kl. 17 og verða göngurnar svo vikulegur viðburður alla fimmtudaga í júní, júlí og ágúst. Hægt er að panta göngur á öðrum tímum gegn gjaldi, en annars eru þessar vikulegu göngur gestum að kostnaðarlausu. Farið er frá aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, en þaðan liggur leiðin um hinar og þessar götur miðborgarinnar.

Alltaf er um sömu göngu að ræða og að þessu sinni er áherslan á myrkraverk, en textar göngunnar koma úr þjóðsögum og glæpasögum.

Göngurnar henta öllum og eru skemmtileg leið til að kynnast íslenskum bókmenntum og sögusviði þeirra, Reykjavíkurborg, í leiðinni. Hver ganga tekur um það bil einn og hálfan klukkutíma.

Sem upphitun fyrir göngurnar sýnir Borgarbókasafnið við Tryggvagötu heimildamyndina Spirits of Iceland: Living With Elves, Trolls and Ghosts hvern fimmtudag kl. 16 í Kamesinu, sýningarrými á fimmtu hæð aðalsafns.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál