Fréttir

Rithöfundar hylltir á þjóðhátíðardag

Í augum og hugum þeirra sem sátu heima og lásu í bók á frídegi lýðveldisþegna þann sautjánda júní síðastliðinn, var dagurinn margt öðrum líkur. Nema ef skyldi vera að Elskhuganum eða Gargantúa og Pantagrúl hafi verið lagt til hliðar fyrir eitthvað þjóðlegra og lýðvaldara. Sumum verður tíðrætt um íslenska tungu á degi sem þessum, og ekki að ósekju, hún er ósköp falleg. En það er líka hughreystandi og upplífgandi að heyra að hæfum rithöfundum, sem virkja þetta fallega tungumál, sé gert hátt undir höfði á sautjánda júní.

Þannig kaus Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur að nefna Þorgrím Þráinsson borgarlistamann Reykjavíkur árið 2013. Þorgrímur er fyrsti barnabókahöfundurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu en fyrri „rithöfundar Reykjavíkur“ (sem er ekki opinbert heiti og skyldi hvergi notað) eru Sigurður Pálsson ('87), Nína Björk Árnadóttir ('89), Megas ('90), Thor Vilhjálmsson ('98), Ingibjörg Haraldsdóttir ('03), Hallgrímur Helgason ('04) og Þórarinn Eldjárn ('08). Þorgrímur hefur sent frá sér ríflega tuttugu barna- og unglingabækur, síðast Krakkin sem hvarf, sem kom út nú fyrir jól, og er sannarlega vel að titlinum kominn.

Þá var Sigurbjörg Þrastardóttir nefnd bæjarlistamaður Akraness. Sigurbjörg er fædd á Akranesi og keppti nýverið fyrir hönd sveitarfélagsins í Útsvari. Hún er og afkastamikið ljóðskáld sem sendi frá sér sína aðra skáldsögu, Stekk, á síðasta ári. Afhending viðurkenningarinnar fór að sjálfsögðu fram á Akranesi í tengslum við hátíðarhöldin 17. júní, en á vefsíðu kaupstaðarins má sjá myndir frá afhendingunni.

Loks voru tveir rithöfundar sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á mánudag. Kristín Steinsdóttir hlaut riddarakross fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta; og Árni Bergmann hlaut sömuleiðis riddarakross fyrir sitt framlag til bókmennta og menningar á Íslandi.

Víst eru nokkrir dagar liðnir frá þjóðhátíðardeginum, en betra seint en aldrei: við óskum þeim Árna, Kristínu, Sigurbjörgu og Þorgrími innilega til hamingju með allt saman.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál