Fréttir

Enn af góðum tilnefningum

Sunnudaginn 1. desember síðastliðinn var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna, sem Bandalag þýðenda og túlka hefur veitt árlega síðan árið 2005. Verðlaununum er ætlað að heiðra þýðendur og vekja athygli á þætti þýðinga og framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta og bókmenntaarfs þjóðarinnar.

Eftirfarandi þýðendur eru tilnefndir í ár. Með fylgja umsagnir dómnefndar, en í henni sátu Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, formaður, Árni Matthíasson og Hermann Stefánsson.

Ingunn Ásdísardóttir fyrir þýðingu á Ó - Sögum um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen sem Uppheimar gefa út.

Í Ó – søgur um djevulskap segir Carl Jóhan Jensen sögu Færeyja í óvenjulegri skáldsögu. Í bókinni fléttast saman margradda 200 ára epísk átakasaga sem Jensen eykur með ítarlegum neðanmálsgreinum sem grípa inní söguna, draga fram aðrar hliðar á frásögninni og snúa útúr henni. Orðfæri sögunnar er snúið, kostulegt og ævintýralegt, skreytt tilbúnum orðum og orðleysum, og verkið er endalaus sjóður af óvæntum uppákomum í tungumálinu. Ingunn Ásdísardóttir leysir með glæsibrag hverja þá erfiðu þraut sem við henni blasir.

María Rán Guðjónsdóttir fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Rödd í dvala eftir Dulce Chacón sem Sögur gefa út.

Rödd í dvala byggir á munnlegum heimildum en er einkar bókmenntalegur texti. Í bókinni er tekist á við sögulega gleymsku og andæft þögn um veruleika kvenna. Hún er tilraun til að ljá rödd þeim fjölmörgu konum sem máttu sæta fangavist og pyntingum eftir þátttöku sína í spænsku borgarastyrjöldinni og telst eitt af tímamótaverkunum í uppgjöri bókmenntanna við spænsku borgarastyrjöldina. Rödd í dvala kemur út sléttum tíu árum eftir dauða höfundarins í glæsilegri þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur.

Njörður P. Njarðvík fyrir þýðingu sína á ljóðum Thomasar Tranströmer. Uppheimar gefa út.

Tomas Tranströmer, sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels 2011, er með höfuðskáldum evrópskra bókmennta og hefur markað djúp spor í heimsbókmenntunum. Í Ljóðum 1954-2004 eru öll útgefin ljóð Tranströmers saman komin í einni bók. Ljóðlist Tranströmers er knöpp og gjarnan orðfá, myndmálið er nákvæmt og módernískt, á ytra byrði er gjarnan teflt fram hvunndagslegum myndum sem enduróma í innra lífi einstaklingsins eða í sögu mannkyns. Tranströmer gerir miklar kröfur til lesenda sinna og þá ekki síður þýðenda og er mikill fengur að heildarsafni ljóða hans sem Njörður þýðir af vandvirkni og metnaði, trúr rödd höfundarins.

Rúnar Helgi Vignisson fyrir þýðingu á Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner. Útgefandi Uppheimar.

William Faulkner er með merkustu rithöfundum Bandaríkjanna og um leið með merkustu rithöfundum sögunnar. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1949. Sem ég lá fyrir dauðanum, As I Lay Dying, kom út 1930 og er jafnan talin með helstu verkum Faulkners. Í bókinni beitir Faulkner tilraunakenndum stílbrögðum þar sem fimmtán sjónarhorn birtast í fimmtíu og níu brotum en með því nær Faulkner að bregða ljósi á hjörtu og hugsanir þeirra sem segja frá. Rúnar Helgi Vignisson nær að snúa þessum knappa og tálgaða en þó flæðandi og síkvika stíl á tilgerðarlausa og auðuga íslensku.

Stefán Steinsson fyrir þýðingu á Rannsóknum Heródótusar sem Forlagið gefur út.

Rannsóknir Heródótusar eru eitt af lykilverkum vestrænna bókmennta og löngu tímabært að snara því á íslensku. Rannsóknir Heródótusar segja frá Persastríðunum og marka upphafið að vestrænni söguritun. Heródótus hefur ýmist verið kallaður faðir sagnfræðinnar eða faðir lyga. Fræðimenn fyrri tíma héldu því fram að íslenska og gríska ættu sér einhverskonar innri skyldleika og þýðing Stefáns Steinssonar rennir stoðum undir þá staðhæfingu; hún er lipur og leikandi, alþýðleg og fræðileg í senn og færir veruleika verksins svo nærri lesandanum að honum finnst sem hann sé að lesa rit sem frumsamið sé á íslensku.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál