Fréttir

Drengur, teiknibók og tímakista Íslands

Íslensku bókmenntaverðlaunin, sem forseti Íslands afhendir, voru afhent af forseta Íslands á heimili hans í gær, fimmtudaginn 30. janúar. Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt frá því á sama tíma í fyrra.

Í millitíðinni hefur bæst við einn verðlaunaflokkur; nú voru í fyrsta skipti veitt verðlaun í flokki barna- og unglingabókmennta, til auka við hina reglubundnu flokka fagurbókmennta og fræðibóka og bóka almenns efnis.

Sjón fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Mánasteinn: drengurinn sem var aldrei til.

Guðbjörg Kristjánsdóttir fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis fyrir Íslensku teiknibókina.

og Andri Snær Magnason fékk verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka fyrir Tímakistuna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sjón hlýtur íslensku bókmenntaverðlaunin, en hann hefur þrisvar áður verið tilnefndur: fyrir Rökkurbýsnir (2008), Söng steinasafnarans (2007) og Skugga-baldur (2003). Sjá hér á vefnum síðu Sjóns og umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur um Mánastein.

Andri Snær hefur tvisvar áður hlotið verðlaunin, árið 2004 í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis fyrir Draumalandið og árið 1999 í flokki fagurbókmennta fyrir Söguna af bláa hnettinum. Þá var hann áður tilnefndur árið 2002 fyrir skáldsöguna LoveStar. Sjá hér á vefnum síðu Andra Snæs og umfjöllun Veru Knútsdóttur um Tímakistuna.

Þetta er í fyrsta skipti sem Guðbjörg Kristjánsdóttir er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sýning á eftirprentunum, endurgerðum og tölvuuppdráttum úr handriti teiknibókarinnar stendur til 9. febrúar í Gerðarsafni – Listasafni Kópavogs (sjá á heimasíðu Gerðarsafns), en henni stýrir Guðbjörg einnig. Hún vinnur nú að enskri gerð bókarinnar.

Loks er gaman að geta þess að bóksalar virðist hafa verið nokkuð forspáir í síðasta flóði: allar þessar bækur fengu bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í sínum flokki nú fyrir jól – Tímakistan var þá að vísu flokkuð með táningabókum.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál